Minnst sex látnir eftir árásirnar í morgun

Að minnsta kosti sex létu lífið í loftárásum Rússa á Kænugarð og á austurhluta Súmí-héraðs í Úkraínu í morgun, samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum þar í landi.

Tugir Kamikaze-dróna voru sendir á Kænugarð en hluti þeirra var skotinn niður áður en hann komst að skotmarkinu. Þá hæfðu flugskeyti borgaraleg skotmörk í Súmí.

Minnst þrír létust í árásunum á Kænugarð þar sem drónarnir ollu miklum skemmdum í íbúðahverfi í miðborginni. Búið er að bjarga nítján einstaklingum úr rústum bygginga og eru björgunarstörf enn í gangi, að sögn Kírílo Tím­osj­en­kó, talsmanni forsetaembættisins.

Þrjú flugskeyti hæfðu innviði

Dmítró Tsjivitskí, héraðsstjóri Súmí-héraðs, sagði minnst þrjá hafa látist í árásinni í morgun og að enn væri fólk fast undir rústum bygginga.

„Klukkan 5.20 í morgun hæfðu þrjú flugskeyti borgaralega innviði. Að minnsta kosti þrír eru látnir. Níu eru særðir,“ skrifaði Tsjivitskí á samfélagsmiðlum.

 

Búið er að bjarga nítján undan rústum bygginga í Kænugarði.
Búið er að bjarga nítján undan rústum bygginga í Kænugarði. AFP/Yasuyoshi Chiba
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert