Rafmagnsleysi er víða í Úkraínu vegna flugskeyta- og drónaárása í morgun og í gær, á orkuinnviði í landinu.
Kíríló Tímósjenskó, talsmaður úkraínska forsetaembættisins, sagði í morgun að flugskeytaárás hefði verið gerð á orkuinnviði í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.
Vítalí Klítskó, borgarstjóri Kænugarðs, sagði að tilkynningar hefðu borist um sprengingar í Desníanskí-hverfi borgarinnar í norðausturhlutanum. Sagði hann að árás hefði verið gerð á mikilvæga innviði.
Tvö flugskeyti hæfðu orkuinnviði í miðborg Dnípró, fjórðu stærstu borg Úkraínu, sem ollu alvarlegum skemmdum. Fór rafmagnið af nokkrum hverfum borgarinnar í kjölfarið.
Þá voru einnig gerðar árásir á orkuinnviði í borginni Tsjítomír, vestur af Kænugarði. Eru íbúar þar án vatns og rafmagns.
Í Karkív, sem er önnur stærsta borg Úkraínu, voru árásir gerðar á iðnaðarhverfi. „Á fimm mínútum var um að ræða tvær raðir sprenginga í borginni,“ sagði Ígor Terekov, borgarstjóri Karkív.