Minnst 50 metrar af gasleiðslunni skaddaðir

Gaslekinn frá Nord Stream-leiðslunni sást glöggt á yfirborði sjávar í …
Gaslekinn frá Nord Stream-leiðslunni sást glöggt á yfirborði sjávar í septemberlok. AFP

Að minnsta kosti 50 metrar af gasleiðslunni Nord Stream 1 eru eyðilagðir eða þaktir botnleðju í kjölfar meintra skemmdarverka í lok september. Þetta kemur glöggt fram á myndskeiði sem sænska dagblaðið Expressen birti í morgun.

„Gríðarlegir kraftar hafa verið þarna að verki, öðruvísi er ekki mögulegt að sveigja svo þykkan málm sem er í rörunum,“ segir Trond Larsen hjá köfunarfyrirtækinu Blueye Robotics í samtali við blaðið.

Lýsir hann því að sjá megi ummerki um sprengingu, hvort tveggja á leiðslunni sjálfri og á sjávarbotninum umhverfis hana. Sprengingin eða sprengingarnar í lok september orsökuðu leka úr leiðslunum tveimur á fjórum stöðum, tveimur innan danskrar efnahagslögsögu og tveimur innan þeirrar sænsku.

Danir setja á fót rannsóknarhóp

Gáfu sænsk yfirvöld það út 6. október að þau hefðu aflað gagna sem styddu þá kenningu að leiðslurnar hefðu orðið fyrir skemmdarverkum. Einnig hefur danska öryggislögreglan PET ásamt danska hernum rannsakað ummerkin og slegið því föstu að öflug sprenging hafi orðið á hafsbotni við leiðslurnar.

Rannsóknarhópur á vegum PET og lögreglunnar í Kaupmannahöfn mun annast frekari rannsókn á ummerkjunum. Í fréttatilkynningu frá lögreglunni kemur fram að eins og er sé ekki hægt að veita frekari upplýsingar um stöðu rannsóknarinnar þrátt fyrir að lögreglu sé kunnugt um mikinn áhuga almennings á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert