Sakfelldur fyrir morðið 26 árum síðar

Paul Flores var handtekinn árið 2019 og sakfelldur í dag.
Paul Flores var handtekinn árið 2019 og sakfelldur í dag.

Rúmum 26 árum eftir að hin 19 ára Kristin Smart hvarf á leið sinni frá háskólasamkvæmi í Kaliforníu, hefur Paul Flores, 45 ára maður, verið sakfelldur fyrir að hafa ráðið henni bana.

Smart fannst aldrei og í áratugi var mál hennar óleyst – þar til Flores var handtekinn á síðasta ári.

Flores, sem var á meðal grunaðra á sínum tíma var einnig 19 ára og sá síðasti sem sást með Smart áður en hún hvarf. Er hann sagður hafa gengið með henni heim úr umræddu samkvæmi nóttina örlagaríku.

Saksóknarar segja Flores hafa nauðgað, eða í það minnsta reynt, að nauðga Smart og ráðið henni bana. Í kjölfarið hafi hann grafið líkamsleifar hennar við heimili föður síns. 

Faðir Paul, Ruben Flores, sem nú er 81 ára, var sýknaður af ákæru fyrir að hjálpa til við að fela líkið.

Eltihrellir sem gekk með henni heim

Við réttarhöldin sögðu saksóknarar að Paul Flores hafi fylgst með Smart svo mánuðum skiptir fyrir morðið, og mögulega byrlað henni á meðan samkvæminu stóð.

Smart var talin af árið 2002 en hið óleysta mál gleymdist aldrei í heimabænum hennar, San Luis Obispo , og var meðal annars viðfangsefni í morðshlaðvarpinu „Your Own Backyard“, þar sem vöngum var velt um hvað orðið hefði um hana.

Árið 2019 sagði vitni að Flores hefði treyst sér fyrir játningu. Hiti færðist í málið á ný og sögðu saksóknarar að óvanalegar mannaferðir að heimili föður Flores hefði bent til þess að einhver hefði verið þar í þeim tilgangi að færa líkamsleifar Smarts.

Felldi tár við úrskurðinn

Dómsmálið var fært frá heimabænum yfir í nærliggjandi borg, Monterey, til þess að tryggja sanngjörn réttarhöld. Foreldrar Smart föðmuðust og felldi móðir hennar, Denise, tár í réttarsalnum þegar úrskurðurinn var lesinn upp.

Flores verður úrskurðaður þann 9. desember og gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Verjandi hans, Robert Sanger, sagði að málið væri enn í biðstöðu og neitaði að tjá sig frekar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert