Lögreglan í Innlandet-fylki í Noregi er í þeirri óvenjulegu stöðu að standa í fasteignaviðskiptum. Kemur þetta til af því að einbýlishús, sem notað var sem gróðurhús fyrir umfangsmikla kannabisrækt, var tekið eignarnámi með dómi eftir að þrír pólskir menn voru handteknir fyrir framleiðsluna haustið 2020.
Hlutu þeir sína dóma í réttarkerfinu og var í kjölfar þess vísað úr landi. Húsið var gert upptækt með heimild í hegningarlögum þar sem það var notað til brotastarfsemi. Setur lögreglan það nú á sölu til að afla tekna fyrir ríkissjóð Noregs enda hefur hún ekkert við húsið að gera sem er í töluverðri niðurníðslu.
„Við höfum engin tök á að taka húsið í gegn,“ segir Henning Klauseie, lögreglustjóri í Elverum, við norska ríkisútvarpið NRK, „það selst þess vegna bara í núverandi ástandi með kostum og göllum ef svo má segja.“
Húsið er staðsett í Sørskogbygda þar í bænum og hefur lögregla ekki haft þar uppi aðrar framkvæmdir en að fjarlægja allar kannabisplönturnar sem þar voru í ræktun. Ásett verð er ekki hátt, aðeins 250.000 norskar krónur, jafnvirði 3,4 milljóna íslenskra króna, svo kaupandi getur nælt sér í fasteign fyrir gjafverð, að minnsta kosti ef hann er tilbúinn í töluverðar framkvæmdir til að koma eigninni í íbúðarhæft ástand.
Lögreglan dylur ekki með nokkrum hætti til hvers fyrri eigandi notaði húsið enda er það nú til umfjöllunar í norskum fjölmiðlum. „Það leynir sér ekkert þegar húsið er skoðað. En auðvitað er ekki hlaupið að því að líkja þessu við önnur fasteignaviðskipti í nágrenninu, þetta er allt annað mál,“ segir lögreglustjórinn.
„Eign með ótal nýtingarmöguleika á góðum og sólsælum stað við Kynnberget í Sørskogbygda,“ segir í auglýsingu fasteignasölunnar Eiendomsmegler 1 og kveðst Thomas Skogli Rusten þar á bæ áður hafa selt eignir í hörmulegu ástandi en aldrei þó fyrrverandi kannabisræktun.
Þrátt fyrir ástandið kveður Rusten marga hafa sýnt húsinu áhuga, hafi hann fengið fyrirspurnir frá um 20 manns og séu einhverjir þeirra á leið til Elverum til að skoða eignina. „Nokkrir hafa minnst á að bara að hreinsa til í húsinu sé gríðarleg vinna,“ segir fasteignasalinn og bætir því við að þeir áhugasömu hafi ekki látið fyrra hlutverk hússins fæla sig frá.
NRKIII (mál í Tromsø þar sem hús var tekið eignarnámi vegna ræktunar)