Matarverð í Bretlandi er við það að ríða þeim heimilum á slig sem höllustum fæti standa fjárhagslega, að því er breska ríkisútvarpið BBC greinir frá í samantekt um málið. Hafa aðrar eins verðhækkanir á þessum vettvangi ekki sést í 42 ár eða síðan árið 1980.
Á eins árs tímabili fram að nýliðnum septembermánuði hækkaði matarverð í Bretlandi um 14,6 prósent og draga þar brauð, morgunkorn, kjöt og mjólkurvörur vagninn en fiskur, sykur, ávextir og hrísgrjón eru einnig að verða þungur kross að bera fyrir hinn almenna breska neytanda.
Verðbólga í landinu er nú 10,1 prósent og reikna fræðingar með frekari hækkun hennar er fram líður. Stríði Pútíns í Úkraínu er kennt um bróðurpart þessara verðhamfara en ofan á allt annað hefur pundið veikst nokkuð sem gerir innflutt matvæli ekki ódýrari.
„Matar- og drykkjarframleiðendur gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda verðinu niðri en gríðarmiklar hækkanir hráefna og orku auk annars kostnaðar gera þeim erfitt fyrir,“ segir Karen Betts, stjórnarformaður samtaka matar- og drykkjarframleiðenda, Food and Drink Federation sem svo heitir.
Þá segir breska hagstofan ONS húsgögn og hótelgistingu einnig hafa hækkað umtalsvert og breski seðlabankinn spáir allt að 11 prósenta verðbólgu fyrir lok þessa mánaðar, ekki síst vegna hækkana á orkuverði sem gasþurrð í Evrópu hefur kallað fram.
„Maður hugsaði með sér að kæmist maður [gegnum faraldurinn] stæði maður flest gjörningaveður af sér. En það var kannski rangt mat,“ segir Jen Welch sem á og rekur bakaríið Bread& en það stofnaði hún í miðjum heimsfaraldri kórónuveirunnar. Kostnaðurinn við reksturinn er nú orðinn Welch verulega þungur í skauti. Hafa hveiti, smjör og olía hækkað glórulaust í verði auk þess sem rafmagnsreikningurinn sé kominn í rúm þúsund pund á mánuði en sú upphæð nemur tæpum 163.000 krónum.
Hagfræðingar telja verðbólguna í Bretlandi munu auka þrýstinginn á að seðlabankinn hækki vexti á næsta vaxtaákvörðunarfundi í nóvember. Victoria Scholar, yfirmaður fjárfestinga hjá Interactive Investor, segir bankann milli steins og sleggju, „between a rock and a hard place“ eins og hún orðar það við BBC, verðbólgan sé nú höfuðvandi breska hagkerfisins.
„Án verðstöðugleika mun dýrtíðin leggjast þungt á hagkerfið, þjarma að fjárhag heimilanna og draga úr umsvifum viðskipta,“ segir Scholar enn fremur. Er þó reiknað með að verðhækkanir nái hámarki sínu í þessum mánuði þegar ríkisstjórnin bindur hámarksupphæð rafmagnsreiknings einstakra heimila við 2.500 pund á ári sem þó er nokkuð hressileg upphæð, 407.000 íslenskar krónur.