Liz Truss hefur sagt af sér embætti forsætisráðherra Bretlands. Fyrir utan Downingstræti 10 sagðist hún hafa tekið við embættinu á tímum „mikils efnahagslegs- og alþjóðlegs óstöðugleika“.
Kosið verður um nýjan leiðtoga breska Íhaldsflokksins innan viku. Þangað til nýr leiðtogi hefur verið kjörinn verður Truss áfram í embætti.
„Miðað við stöðuna sem er uppi núna get ég ekki unnið eftir því umboði sem ég var kosin til af Íhaldsflokknum. Þess vegna hef ég rætt við hans hátign og látið hann vita að ég ætla að segja af mér sem leiðtogi Íhaldsflokksins,“ sagði Truss fyrir utan Downingsstræti.
Truss hefur einungis verið forsætisráðherra í 45 daga. Aldrei áður hefur forsætisráðherra Bretlands þurft að hverfa á braut eftir svo stuttan tíma í embætti.
Sá sem næst kemur því er George Canning sem var í 119 daga í embætti, eða þangað til hann lést árið 1827.
Ríkisstjórn Truss hefur verið harðlega gagnrýnd eftir að hún hætti við fyrirhugaðar skattalækkanir.
Kwasi Kwarteng var vikið úr embætti eftir að hafa stoppað stutt við sem fjármálaráðherra Bretlands.
BBC greinir frá því að Jeremy Hunt, sem tók við af Kwarteng sem fjármálaráðherra, ætlar ekki að bjóða sig fram sem leiðtoga Íhaldsflokksins og um leið sem næsta forsætisráðherra.