Niemann kærir Carlsen vegna ásakana

Hans Niemann krefst hárra skaðabóta vegna ásakana um svindl.
Hans Niemann krefst hárra skaðabóta vegna ásakana um svindl. AFP

Bandaríski stórmeistarinn, Hans Niemann, hefur kært Magnus Carlsen, heimsmeistara í skák, til dómstóls í Missouri-ríki í Bandaríkjunum vegna ásakana um svindl, þar sem þær hafi skaðað orðspor hans, feril og líf.

Birti Niemann kæruna á Twitter-reikningi sínum og skrifaði: „Kæran segir allt sem segja þarf.“

Kæra Niemanns beinist þá að fleirum, þar á meðal Chess.com, og krefst hann um 100 milljóna bandaríkjadala í skaðabætur, sem samsvarar um 14 milljörðum íslenskra króna.

Setur hann þær kröfur fram vegna miska en einnig vegna fjárhagslegs tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir. 

„Útilokaður frá greininni sem hann hefur helgað líf sitt“

Niemann kveðst hafa verið ranglega verið sakaður um að hafa svindlað gegn Carlsen, sem leiddi til þess að hann hafi verið útilokaður frá íþróttagreininni sem hann hefur helgað líf sitt, að því er fram kemur í kæru Niemanns.

Sigraði hann Carlsen á Sinquefield-mótinu, sem sakaði Niemann í kjölfarið um svindl. Sú atburðarás hratt af stað háværri umfjöllun um meint svindl Niemanns og annarra innan skákheimsins.

Segir svindlið ósannað

Niemann hefur krafið eftirfarandi um að minnsta kosti 100 milljónir Bandaríkjadala í bætur eða sem samsvarar 14 milljörðum íslenskra króna:

  • Magnus Carlsen
  • Skáksíðuna Chess.com og framkvæmdastjóra hennar, Danny Rensch
  • Bandaríska stórmeistarann Hikaru Nakamura
  • Play Magnus, fyrirtæki í eigu Carlsen

Vakin er athygli á því í kæru Niemanns að Alþjóðaskáksambandið hafi gefið út yfirlýsingu í september síðastliðnum, þar sem hegðun Carlsens hafi verið dregin í efa. Sambandið væri tilbúið að taka málið til rannsóknar þegar nægar sannanir lægju fyrir, en sjálfur segir Niemann svindlið ósannað.

Telur Niemann þá að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni þar sem honum gafst ekki kostur á að taka þátt í fjölda móta, þar á meðal Tata Steel-mótinu, í kjölfar ásakananna. 

Chess.com birti skýrslu nýverið þar sem fram kom að Niemann hefði svindlað í yfir 100 skákum á netinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert