Úkraínska orkufyrirtækið Ukrenergo hvatti íbúa Úkraínu til þess að hlaða öll þau raftæki sem völ var á fyrir klukkan sjö í morgun að staðartíma til að undirbúa sig fyrir rafmagnsleysi sem verður víða í landinu í dag og gæti varað í allt að fjórar klukkustundir.
Þá var íbúum ráðlagt að birgja sig upp af vatni og hafa hlýja sokka og teppi til reiðu. BBC greinir frá.
Hersveitir Rússa hafa undanfarna daga verið að miða flugskeytum og drónum á orku innviði í Úkraínu og hafa íbúar víða verið án vatns og rafmagns tímabundið.
Á þriðjudaginn sagði Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu að um 30% af orkuverum landsins hefðu eyðilagst í loftárásum.
Ukrenergo sagði að fleiri árásir hefðu verið gerðar á orkuinnviði í landinu á síðustu tíu dögum samanborið við alla mánuðina á undan frá því að stríðið hófst.
Þá hafa yfirvöld hvatt íbúa til að minnka notkun rafmagns á kvöldin.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2022/10/18/flugskeytaaras_a_orkuinnvidi_i_morgun/
„Á morgun [fimmtudag] munum við beita stýrðum neyslutakmörkunum, sem við neyðumst til að gera, til að tryggja að kerfið virki,“ sagði í yfirlýsingu orkufyrirtækisins á samfélagsmiðlum í gær.
Rafmagnsleysið gæti átt sér stað víða um Úkraínu milli klukkan sjö í morgun og 10 í kvöld. Var íbúum ráðlagt að leita sér upplýsinga á netinu varðandi klukkan hvað rafmagn yrði tekið af þeirra byggð.