Keir Starmer, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, vill að að efnt verði til þingkosninga í landinu þegar í stað eftir að Liz Truss sagði af sér embætti forsætisráðherra.
„Íhaldsflokkurinn hefur sýnt að hann hefur ekki lengur umboð til að stjórna. Eftir 12 ára mistök undir stjórn íhaldsmanna á breskur almenningur skilið svo miklu meira en þessa óreiðu,“ sagði Starmer.
Hann bætti við að íhaldsmenn hafi skilið þjóðina eftir „veikari og verr setta en áður“.
„Íhaldsmenn geta ekki brugðist við þessu síðasta klúðri sínu með því einfaldlega að smella saman fingrum og stokka upp fólki á toppnum án þess að ráðfæra sig við breskan almenning.“
Hann hélt áfram: „Við verðum að fá tækifæri fyrir nýtt upphaf. Við þurfum nýjar þingkosningar, þegar í stað.“