Breskir íhaldsmenn sem líta forsætisráðherrastólinn hýru auga keppast nú við að tryggja sér stuðning hundrað þingmanna áður en framboðsfresturinn rennur út klukkan 14 á mánudaginn.
Boris Johnson, sem vermdi stólinn á undan Liz Truss, er á meðal þeirra sem talin eru líkleg til að taka við embættinu en hann hefur ekki útilokað slíka endurkomu. Honum var bolað burt úr embætti fyrr á árinu eftir raðir hneykslismála sem vörðuðu meðal annars veisluhöld á tímum strangra takmarkana vegna Covid-19.
Rishi Sunak og Penny Mordant, sem lutu í lægra haldi fyrir Truss á sínum tíma, hafa einnig verið orðuð við embættið og eru þau talin líkleg til að bjóða sig fram á nýjan leik.
Jeremy Hunt, nýskipaður fjármálaráðherra landsins, hefur útilokað framboð. Hann tók nýverið við af Kwasi Kwarteng sem var náinn bandamaður Truss en hann var látinn taka poka sinn í síðustu viku. BBC greinir frá.
Samkvæmt heimildum BBC hefur Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra í ríkisstjórn Borisar Johnsons, mesta stuðninginn innan flokksins í embættið eða 43 meðmælendur. Þar á eftir kemur Boris Johnson með 19 meðmælendur og að lokum Penny Mordaunt með 15 meðmælendur.
Staðan gæti þó breyst mjög hratt og gætu aðrir frambjóðendur á borð við Ben Wallace varnarmálaráðherra, Suella Braverman, fyrrverandi innanríkisráðherra og Kemi Badenoch, ráðherra alþjóðaviðskiptaráðherra, einnig fengið stuðning í embættið.
Liz Truss sagði af sér í gær sem forsætisráðherra landsins eftir einungis 45 daga í embætti. Aldrei áður hefur forsætisráðherra Bretlands þurft að hverfa á braut eftir svo stuttan tíma í embætti.
Kosið verður um nýjan leiðtoga Íhaldsflokksins í næstu viku og er búist við að niðurstaða liggi fyrir á föstudaginn en þangað til mun Truss sitja áfram í forsætisráðherrastólnum.
Ekki eru allir sáttir við þær tilfæringar sem Íhaldsmenn hafa ráðist í á síðustu vikum en Keir Starmer, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, telur réttast að efnt verði til þingkosninga í landinu í stað þess að enn annar íhaldsmaðurinn fái að taka við embættinu.
„Íhaldsmenn geta ekki brugðist við þessu síðasta klúðri sínu með því einfaldlega að smella saman fingrum og stokka upp fólki á toppnum án þess að ráðfæra sig við breskan almenning,“ sagði Starmer.