Boris Johnson gæti snúið aftur í embættið

Boris hefur ekki útilokað endurkomu.
Boris hefur ekki útilokað endurkomu. AFP/Isabel Infantes

Breskir íhaldsmenn sem líta forsætisráðherrastólinn hýru auga keppast nú við að tryggja sér stuðning hundrað þingmanna áður en framboðsfresturinn rennur út klukkan 14 á mánudaginn. 

Boris Johnson, sem vermdi stólinn á undan Liz Truss, er á meðal þeirra sem talin eru líkleg til að taka við embættinu en hann hefur ekki útilokað slíka endurkomu. Honum var bolað burt úr embætti fyrr á árinu eftir raðir hneykslismála sem vörðuðu meðal annars veisluhöld á tímum strangra takmarkana vegna Covid-19.

Rishi Sunak og Penny Mordant, sem lutu í lægra haldi fyrir Truss á sínum tíma, hafa einnig verið orðuð við embættið og eru þau talin líkleg til að bjóða sig fram á nýjan leik.

Jeremy Hunt, nýskipaður fjármálaráðherra landsins, hefur útilokað framboð. Hann tók nýverið við af Kwasi Kw­arteng sem var náinn bandamaður Truss en hann var lát­inn taka poka sinn í síðustu viku. BBC greinir frá.

Sunak líklegri en Johnson

Samkvæmt heimildum BBC hefur Rishi Sunak, fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra í rík­is­stjórn Boris­ar John­sons, mesta stuðninginn innan flokksins í embættið eða 43 meðmælendur. Þar á eftir kemur Boris Johnson með 19 meðmælendur og að lokum Penny Mordaunt með 15 meðmælendur.

Staðan gæti þó breyst mjög hratt og gætu aðrir frambjóðendur á borð við Ben Wallace varnarmálaráðherra, Suella Braverman, fyrrverandi innanríkisráðherra og Kemi Badenoch, ráðherra alþjóðaviðskiptaráðherra, einnig fengið stuðning í embættið.

Einn og hálfur mánuður í embætti

Liz Truss sagði af sér í gær sem forsætisráðherra landsins eftir einungis 45 daga í embætti. Aldrei áður hef­ur for­sæt­is­ráðherra Bret­lands þurft að hverfa á braut eft­ir svo stutt­an tíma í embætti.

Kosið verður um nýjan leiðtoga Íhaldsflokksins í næstu viku og er búist við að niðurstaða liggi fyrir á föstudaginn en þangað til mun Truss sitja áfram í forsætisráðherrastólnum. 

Ekki eru allir sáttir við þær tilfæringar sem Íhaldsmenn hafa ráðist í á síðustu vikum en Keir Starmer, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, telur réttast að efnt verði til þingkosninga í landinu í stað þess að enn annar íhaldsmaðurinn fái að taka við embættinu.

„Íhalds­menn geta ekki brugðist við þessu síðasta klúðri sínu með því ein­fald­lega að smella sam­an fingr­um og stokka upp fólki á toppn­um án þess að ráðfæra sig við bresk­an al­menn­ing,“ sagði Starmer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert