Stjórnvöld í Rússlandi telja sig ekki geta dregið mikinn lærdóm af stjórnarháttum í Bretlandi um þessar mundir, landi þar sem þjóðarleiðtoginn er „ekki kjörinn af fólkinu“. Þetta kom fram í svari Dmitrí Peskov, talsmanni Kremlar, þegar hann var spurður af blaðamanni út í mögulega endurkomu Borisar Johnson í embætti forsætisráðherra.
Liz Truss sagði af sér embættinu í gær og í kjölfarið sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands að hann hefði aldrei vitað um „aðra eins skömm í embætti forsætisráðherra“ í Bretlandi.
„Við getum ekki búist við innsýn eða pólitískri visku frá Vesturlandaþjóð núna, sérstaklega ekki Stóra-Bretlandi, þar sem núverandi þjóðarleiðtoginn er ekki kjörinn af fólkinu,“ sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, í dag.
Samskipti Breta og Rússa hafa aldrei verið verri en núna en þeim hefur hrakað mjög frá upphafi stríðsins í Úkraínu.
Þá er Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, sem hefur verið orðaður við embættið á nýjan leik, ekki í miklum metum hjá Rússum enda hefur hann átt í góðum samskiptum við Volodimír Selenskí forseta Úkraínu.