Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, hefur útilokað framboð til embættis forsætisráðherra landsins og hallast hann nú að því að veita Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, stuðning sinn til framboðs.
Wallace kveðst þó ekki hafa gert upp hug sinn og segir hann Johnson enn eiga eftir að svara fyrir nokkur mál.
Enginn hefur tilkynnt formlega um framboð til embættisins en þrír íhaldsmenn þykja líklegastir, þar á meðal Johnson. Hin tvö eru þau Rishi Sunak og Penny Mordant, sem lutu í lægra haldi fyrir Liz Truss á sínum tíma.
BBC greinir frá.
Liz Truss sagði af sér sem forsætisráðherra landsins í gær en hún mun gegna starfinu í viku til viðbótar eða þangað til það liggur fyrir hver arftaki hennar í embætti verður. Eiga niðurstöður að liggja fyrir á föstudaginn í næstu viku.
Frambjóðendur þurfa að tryggja stuðning hundrað þingmanna til að geta gefið kost á sér en framboðsfresturinn rennur út klukkan 14 á mánudaginn. Í kjölfarið verður efnt til atkvæðagreiðslu þar sem næsti forsætisráðherra verður kjörinn.
Samkvæmt upplýsingum BBC nýtur Sunak mesta stuðningsins innan Íhaldsflokksins, með 45 þingmenn á bakvið sig. Þá eru 24 þingmenn sem styðja Johnson og 17 sem styðja Mordaunt.