7.567 dagar í fangelsi

Viggo Kristiansen og Jan Helge Andersen hlutu áratuga refsidóma fyrir …
Viggo Kristiansen og Jan Helge Andersen hlutu áratuga refsidóma fyrir Baneheia-málið. Kristiansen hélt sakleysi sínu fram frá fyrsta degi og nú er ljóst að hann verður sýknaður í endurupptökumáli eftir því sem ríkissaksóknari lýsti yfir í gær. Ljósmynd/Úr einkasafni og norska lögreglan

Viggo Kristiansen, sem nú er 43 ára gamall, má eiga von á hæstu bótaupphæð til einstaklings í sögu Noregs eftir að Jørn Sigurd Maurud ríkissaksóknari lýsti því yfir í gær að Kristiansen skyldi sýknaður af sínum þætti í hinu voveiflega Baneheia-máli í Kristiansand vorið 2000.

Baneheia-málið snerist um ör­lög vin­kvenn­anna Lenu Slø­ge­dal Paul­sen, 10 ára, og Stine Sofie Sør­strøn­en, 8 ára, föstu­dag­inn 19. maí árið 2000, og var norsk þjóð slegin óhug yfir málinu.

Vin­kon­urn­ar ungu höfðu fengið sér sund­sprett í vatni í Baneheia, vin­sælu úti­vist­ar­svæði í Kristiansand í Suður-Nor­egi, en áttu ekki aft­ur­kvæmt þaðan. Fund­ust lík þeirra að kvöldi 21. maí og hafði stúlk­un­um verið nauðgað og þær svo stungn­ar til bana, áður en and­vana lík­am­ar þeirra voru dysjaðir í gjótu með hend­ur bundn­ar aft­ur fyr­ir bak.

Inn­an skamms féll grun­ur á Jan nokkurn Helge And­er­sen og Viggo Kristian­sen. Erfðaefni tveggja manna fannst á vett­vangi og voru sýn­in rann­sökuð á rétt­ar­mein­a­rann­sókn­ar­stof­unni í Santiago de Compostela á Norðvest­ur-Spáni, en hún hef­ur á að skipa sér­fræðing­um sem telj­ast með þeim fremstu í heim­in­um á sviði erfðarann­sókna í saka­mál­um.

Hefði getið verið frá 54,6 prósentum

Eitt hár sem fannst á vett­vangi var tengt við And­er­sen með fullri DNA-svör­un. Annað sýni skilaði ekki niður­stöðu, ann­arri en þeirri að það hefði getað komið frá Kristian­sen, en það hefði líka getað komið frá 54,6 pró­sent­um allra norskra karl­manna. And­er­sen til­heyrði hins veg­ar ekki þeim 54 pró­sent­um. Ókunna erfðaefnið gat ekki verið hans.

Hlaut And­er­sen 19 ára dóm fyr­ir víg Sør­strøn­en en ekki tókst að tengja hann við vin­konu henn­ar. Kristian­sen, sem And­er­sen full­yrti að hefði lagt á ráðin um ill­virkið og sann­fært And­er­sen að drýgja með sér, hlaut 21 árs varðveislu­dóm (n. for­var­ing) en fékk mál sitt end­urupp­tekið í fe­brú­ar í fyrra eft­ir sjö um­sókn­ir til end­urupp­töku­nefnd­ar í saka­mál­um.

Fyrsta júní í fyrra gekk Kristiansen út úr Ila-fangelsinu á reynslulausn eftir að hafa setið þar í rúmlega 20 og hálft ár. Yfirlýsing ríkissaksóknara klukkan 13:00 í gær að norskum tíma gerir það að verkum að bótagreiðsla til Kristiansens er yfirvofandi, hana telja lögmenn er norskir fjölmiðlar ræða við geta farið yfir 40 milljónir norskra króna, rúmar 540 íslenskar milljónir.

„Segjum að hann hefði verið í starfi með meðalárslaun upp á 600.000 krónur [8,1 milljón ISK],“ segir Marius Dietrichson, formaður verjendadeildar norska lögmannafélagsins, í samtali við TV2. „Þá erum við að tala um tapaðar tekjur upp á tólf-þrettán milljónir [162 til 175 milljónir ISK] auk vaxta á þá upphæð sem einnig þarf að greiða,“ heldur hann áfram.

Sem þó er aðeins byrjunin

Ofan á þessa upphæð bætist svo að sögn lögmannsins bótagreiðslur fyrir tekjutap fái Kristiansen ekki vinnu nú vegna tengsla nafns hans og persónu við málið. Þar með er þó einungis hálf sagan sögð. Hér á eftir að taka miskabætur með í reikninginn til handa manni sem sat 21 ár í fangelsi saklaus.

Um þær ræðir TV2 við lögmanninn John Christian Elden sem áður hefur tjáð sig um þetta tiltekna mál við mbl.is. „Hann má reikna með um 20 milljónum [270 milljónum ISK] í bætur ef ég miða við samkomulag sem við gerðum við dómsmálaráðuneytið í máli Fritz Moen,“ segir Elden en Moen þessi, sem nú er látinn, var dæmdur fyrir tvö manndráp á áttunda áratugnum sem hann var síðar sýknaður af eftir 18 og hálft ár bak við lás og slá.

Upphæðin til Kristiansens gæti því orðið veruleg og aldeilis rúmlega það því lögmaður hans, Arvid Sjødin, staðfesti það síðdegis í dag við norska fjölmiðla að Kristiansen muni kæra Andersen fyrir rangar sakargiftir og enn fremur krefjast bóta úr hendi hans, en eins og mbl.is greindi frá í sumar er nú ný sakamálarannsókn hafin á hendur Andersen sem nú er grunaður um að hafa myrt báðar stúlkurnar, ekki bara aðra þeirra.

Þungavigtaratriði í málinu gegn Kristiansen á sínum tíma var framburður Andersens um að félagi hans hefði lagt á ráðin um ódæðið og eggjað hann til að fremja það með sér. Þykir nú ljóst að sá framburður sé verulegum vafa undirorpinn.

Elden lögmaður, sem getið er hér að ofan, ræddi málið við Morgunblaðið í júní og hvað ný saksókn gegn Andersen gæti þýtt. „Verði þetta raun­in get­ur hann mögu­lega hlotið tveggja ára dóm, það er að segja mis­mun­inn á þeim 19 árum sem hann áður hlaut og 21 árs dómi, sem er þyngsta fang­els­is­refs­ing sem norsk lög leyfa,“ sagði Elden.

NRK

VG

Dagbladet

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert