Boris Johnson kominn aftur til Bretlands

Boris Johnson á breska þinginu í september.
Boris Johnson á breska þinginu í september. AFP

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er kominn aftur til heimalands síns eftir að hafa stytt fríið sitt í Karíbahafi vegna kapphlaupsins um hver tekur við sem leiðtogi Íhaldsflokksins af Liz Truss.

Hún sagði af sér embætti fyrr í vikunni.

Johnson hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra í síðasta mánuði eftir að fjöldi ráðherra úr ríkisstjórn hans sagði af sér vegna hneykslismála sem leiddu til brotthvarfs hans.

Vill ekki aðra sápuóperu

Dominic Raab, fyrrverandi varaforsætisráðherra Bretlands sem styður íhaldsmanninn Rishi Sunak sem næsta forsætisráðherra, segist sannfærður um að Sunak muni bjóða sig fram.

Í viðtal við BBC sagði hann efnahagsmálin vera „mikilvægasta málið“ og að „Rishi var með réttu áætlunina í sumar og ég held að hann sé með réttu áætlunina núna“.

Dominic Raab.
Dominic Raab. AFP

Stuðningsmenn Sunak segja að hann hafi þegar náð þeim lágmarksfjölda meðmælenda sem þarf til að geta boðið sig fram til leiðtogakjörs.

Raab sagði að Johnson gæti á einhverjum tímapunkti snúið aftur í stjórnmálin en sagði það ómögulegt á meðan breska þingið rannsakar hvort hann hafi villt um fyrir þingmönnum eftir að hafa brotið reglur vegna kórónuveirunnar.

„Við getum ekki farið aftur til baka. Við megum ekki fá aðra umferð af Groundhog Day og sápuóperuna í tengslum við Partygate,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert