Fyrrverandi forseti Kína, Hu Jintao, leið að sögn ríkisfjölmiðla „ekki vel“ þegar hann var óvænt leiddur út af þingi kínverska kommúnistaflokksins á meðan á lokaathöfn þess stóð. Hu er 79 ára gamall.
Hu virtist ekki vilja yfirgefa þingið, þar sem hann sat í fremstu röð við hliðina á forsetanum Xi Jinping. Eftir að reynt hafði verið að lyfta honum upp úr sætinu, án árangurs, var Hu leiddur út úr salnum eftir að hann hafði rætt stuttlega við Xi og forsætisráðherrann Li Keqiang.
Ríkisfjölmiðlar segja að Hu hafi krafist þess að vera viðstaddur lokaathöfnina þrátt fyrir að vera enn að ná sér eftir veikindi. Heilsu hans vegna hafi starfsfólk hans fylgt honum inn í herbergi við hliðina á salnum til þess að hann gæti hvílt sig. Þá kemur einnig fram að Hu líði nú betur.