Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að Rússar hafi gert „gríðarmikla árás“ á Úkraínu í nótt. Fregnir bárust af því í morgun að flugskeytaárásir hafi verið gerðar á innviði landsins, sem leiddu til rafmagnsleysis víða.
„Árásaraðilinn heldur áfram að hrella landið okkar. Í nótt gerði óvinurinn gríðarmikla árás: 36 flugskeyti, sem flest voru skotin niður...Þetta eru grimmilegar árásir á mikilvæga innviði. Þetta eru týpískar aðferðir hryðjuverkamanna,“ sagði Selenskí á samfélagsmiðlum.
Yfir ein milljón heimila í Úkraínu er án rafmagns eftir árásir Rússa víðs vegar um landið, að sögn starfsmanns úkraínska forsetaembættisins.