Tæplega 200 manns hafa látist vegna rigninga og flóða í Níger í Vestur-Afríku frá því að regntímabilið hófst þar í júní, en það er eitt það mannskæðasta í sögu landsins. Um 322 þúsund manns hafa orðið fyrir áhrifum vegna ástandsins.
Alls hafa 59 manns drukknað og 136 látist eftir að heimili þeirra hrundu, en 211 eru slasaðir. Þá hafa meira en 30 þúsund heimili, 83 kennslustofur, 6 heilsugæslustöðvar og 235 korngeymslur eyðilagst.
Þau svæði sem hafa orðið verst úti eru Maradi og Zinder í miðju landsins, Dosso í suðvestri og Tahoua í vestri.
Regntímabilið hefst í júní og getur staðið fram í október og er tala látinna sérstaklega há í ár. Í fyrra létust 70 manns og 200 þúsund urðu fyrir áhrifum. Árið 2020 létust alls 73. Í nágrannríkinu Nígeríu hafa meira en 600 manns látist frá því í júní vegna flóða.
Samkvæmt rannsóknum má rekja þessar rigningar til loftslagsbreytinga, að sögn Katiellou Gaptia, yfirmanns veðurstofunnar í Níger.