Bresk-indverski rithöfundurinn Salman Rushdie missti sjón á öðru auga og hreyfigetu annarrar handar eftir ráðist var að honum í New York í Bandaríkjunum fyrir tveimur mánuðum. Umboðsmaður hann staðfesti þetta við fjölmiðla í dag.
Maður veittist að Rushdie þegar hann var að fara halda fyrirlestur í Chautauqua-stofnuninni í New York hinn 12. ágúst. Stakk hann rithöfundinn meðal annars í hálsinn.
„Hann hlaut mikla áverka, en hann missti líka sjón á öðru auga,“ sagði Andrew Wylie í viðtali við El País um helgina en áður hafði ekki komið fram hversu alvarlegar afleiðingar árásin myndi hafa í för með sér fyrir Rushdie. Hafði umboðsmaður hans áður sagt líklegt að Rushdie myndi missa annað augað.
„Hann var með þrjú alvarleg sár á hálsinum. Hann getur ekki notað aðra höndina, því taugar fóru í sundur í handleggnum. Og hann er með um 15 önnur sár á bringunni og búknum. Þannig þetta var alvarleg árás,“ sagði Wylie og neitaði að gefa upp hvort Rushdie væri enn á sjúkrahúsi. Hann sagði það mikilvægasta vera að hann myndi lifa árásina af.
24 ára karlmaður, Hadi Matar, var ákærður fyrir tilraun til manndráps hinn 18. ágúst síðastliðinn. Hann neitaði sök í málinu. Enn er á huldu af hverju hann réðst að Rushdie.
Wylie sagði þá Rushdie hafa talað saman í gegnum árin um möguleikann á árásum gegn honum. Bók Rushdie, Söngvar Satans, olli miklu fjaðrafoki þegar hún kom út árið 1988 og fékk Rushdie fjölmargar líflátshótanir vegna ásakana um guðlast en bókin er gagnrýnin á múhameðstrú og er bönnuð víða um heim.
Ayatollah Khomeini, þáverandi erkiklerkur Írans, fyrirskipaði að Rushdie skyldi líflátinn árið 1989. Árið 1998 lýsti ríkisstjórn Íran því þó yfir að hún ætlaði ekki að framfylgja dómnum.
Wylie sagði erfitt að verjast gegn árásum eins og Rushdie varð fyrir í ágúst. „Hún kom eins og þruma úr heiðskýru lofti og á sér enga skýringu. Þetta var eins og morðið á John Lennon,“ sagði Wylie.