Ríkisstjórn Ísraels hefur ákveðið að leggja milljónir dollara í nýtt safn fyrir heimsins stærsta safn skjala úr eigu eðlisfræðingsins Alberts Einsteins.
Safnið verður byggt á lóð Hebrew-háskóla, sem nefnist Givat Ram, í borginni Jerúsalem. Ríkisstjórn Ísraels leggur til um 6 milljónir dollara, eða um 870 milljónir króna, og háskólinn mun útvega 12 milljónir dollara, eða um 1,7 milljarða króna, til viðbótar.
Einstein, sem var einn af stofnendum Hebrew-háskóla í Jerúsalem, er einn merkasti eðlisfræðingur allra tíma. Hann lést árið 1955, 76 ára gamall.
Hann ánafnaði á sínum tíma háskólanum öll skjöl sín, sem eru um 85 þúsund talsins.