Roslyn nálgast vesturströnd Mexíkó

Gervihnattamynd sem tekin var í gær sýnir fellibylinn Roslyn nálgast …
Gervihnattamynd sem tekin var í gær sýnir fellibylinn Roslyn nálgast vesturströnd Mexíkó. AFP

Samfélög meðfram vesturströnd Mexíkó búa sig nú undir að fellibylurinn Roslyn gangi þar yfir. Gert er ráð fyrir að hann skelli á strönd Nayarit-ríkis í dag.

Fellibylurinn er skráður sem þriðja flokks stormur og hefur bandaríska fellibyljamiðstöðin (NHC) varað við mögulegum skyndiflóðum, skriðuföllum og skaðlegum vindum.

Roslyn var í morgun um 130 kílómetrum suðvestur af borginni Tepic í Nayarit-ríki, með hámarks viðvarandi vindi upp á 55 metra á sekúndu og færðist hann norður á um 7 m/s, að því er NHC greindi frá. 

Sandpokum hefur verið komið fyrir til að vernda inngang verslunarmiðstöðvar …
Sandpokum hefur verið komið fyrir til að vernda inngang verslunarmiðstöðvar í Jalisco-ríki. AFP/Alfredo Estrella

Nálæg strandríki búa sig einnig undir væntanlegan fellibyl.

Victor Hugo Roldan, forstjóri almannavarna í Jalisco-ríki, sagði í gær að nokkur hundruð manns hefðu verið fluttir brott frá bænum La Huerta. Flestir hafi farið á heimili ættingja sinna, en aðrir leituðu skjóls í neyðarskýlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert