Þriðja kjörtímabilið tryggt – algjör yfirráð

Xi Jinping er hann flutti ræðu sína í morgun.
Xi Jinping er hann flutti ræðu sína í morgun. AFP/Noel Celis

Xi Jinping hefur tryggt sér sitt þriðja kjörtímabil sem forseti Kína og er hann núna umkringdur nánum samstarfsmönnum. Þar með, eftir áratug við völd, hefur hann náð algjörum yfirráðum yfir Kommúnistaflokki Kína.

Xi hefur verið kjörinn aðalritari Kommúnistaflokksins til næstu fimm ára og er hann nánast orðinn einráður eftir áratugi þar sem völdunum hefur verið deilt á meðal elítunnar í landinu.

„Ég vil þakka öllum flokknum innilega fyrir traustið sem þið hafið sýnt okkur,“ sagði Xi við blaðamenn eftir að atkvæðagreiðslan hafði farið fram fyrir luktum dyrum.

Xi, sem er 69 ára, var einnig skipaður aftur sem yfirmaður herráðs Kína sem þýðir að hann hefur völd yfir frelsisher landsins.

Jinping (lengst til vinstri) ásamt félögum sínum í Kommúnistaflokknum, þeim …
Jinping (lengst til vinstri) ásamt félögum sínum í Kommúnistaflokknum, þeim Li Qiang, Li Xi, Zhao Leji, Ding Xuexiang, Wang Huning og Cai Qi, AFP/Wang Zhao

Tilkynnt var jafnframt um að sex af nánum samstarfsmönnum hans verða í teymi hans sem stjórnar landinu.

Formlega verður tilkynnt um áframhaldandi forsetatíð Xi á árlegum fundi ríkisstjórnarinnar í mars á næsta ári.

Þessar nýjustu vendingar þýða að Xi er orðinn valdamesti leiðtogi Kína frá tímum stofnanda Kommúnistaflokksins, Mao Zedong.

Tvö kraftaverk

Í ræðu sinni í morgun fagnaði Xi upprisu Kína sem heimsveldi og góðs gengis landsins undir hans stjórn.

„Heimurinn þarf á Kína að halda,“ sagði Xi. „Eftir meira en 40 ár í leið að auknum endurbótum og opnun landsins höfum við búið til tvö kraftaverk - hraða efnahagslega þróun og samfélagslegan stöðugleika til langs tíma.“

Pútín og Xi Jinping árið 2019.
Pútín og Xi Jinping árið 2019. AFP/Vyacheslav Oseledko

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sent „hlýjustu hamingjuóskir“ sínar til Xi eftir að þriðja kjörtímabil hans var tryggt. Pútín kvaðst vonast eftir áframhaldandi samtali landanna tveggja og enn sterkari tengslum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert