Ætlaði sér að verða Jedi

Nýr formaður Íhaldsflokksins breska og verðandi forsætisráðherra, Rishi Sunak, eftir …
Nýr formaður Íhaldsflokksins breska og verðandi forsætisráðherra, Rishi Sunak, eftir að hafa verið tilnefndur næsti forsætisráðherra flokksins í dag. AFP

Rishi Sunak verður næsti forsætisráðherra Bretlands, en fyrir sjö vikum laut hann í lægra haldi fyrir Liz Truss.

Valdatíð Truss var samkvæmt framangreindu ekki löng en ríkisstjórn hennar var harðlega gagnrýnd eftir að aðgerðir sem fólu t.a.m. í sér boðun umfangmikilla skattalækkana sem leiddu til þess að gengi breska pundsins lækkaði allmikið.

En hver er Rishi Sunak? BBC hefur tekið saman stutta samantekt um verðandi forsætisráðherra Bretlands.  

Foreldrar hans voru innflytjendur

Sunak hafði áður gagnrýnt Truss í baráttunni um leiðtogaembætti Íhaldsflokksins í Bretlandi þar sem hann sagði að áætlun hennar um að fá lánað fé á tímum verðbólgu væri „ævintýrasaga“ sem myndi steypa hagkerfinu í glundroða.

Foreldrar hans komu til Bretlands frá Austur-Afríku og eru bæði af indverskum uppruna. Sunak fæddist í Southampton árið 1980, þar sem faðir hans var heimilislæknir og móðir hans rak lyfjaverslun. 42 árum síðar er hann tilvonandi forsætisráðherra Bretlands, sá fyrsti af asískum uppruna.

Akshata Murty og Rishi Sunak. Sunday Times Rich List áætlar …
Akshata Murty og Rishi Sunak. Sunday Times Rich List áætlar að auður hjónanna sé um 730 milljóna punda virði. AFP

Kleif hratt upp metorðsstigann

Sunak var fyrst kjörinn þingmaður árið 2015, fyrir Richmond í norður Yorkshire, en kleif hratt upp metorðsstigann þegar hann var gerður að fjármálaráðherra í febrúar 2020 undir stjórn Boris Johnson. Á tímum COVID-19 faraldursins stóð hann að baki ýmsum aðgerðum sem fólu í sér fjárhagsaðstoð.

Eiginkona hans er Akshata Murthy, dóttir indverska milljarðamæringsins Narayana Murthy. Sunak hefur sjálfur starfað hjá fjárfestingarbankanum Goldman Sachs og hjá tveimur vogunarsjóðum. Sunday Times Rich List áætlar að auður hjónanna sé um 730 milljóna punda virði.

Árið 2016 sagði hann hópi skólabarna að hann hefði upphaflega viljað verða Jedi riddari þegar hann yrði stór. Uppáhalds Star Wars myndin hans er The Empire Strikes Back.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert