Þrír 18 ára gamlir menn frá Eskilstuna í Svíþjóð sitja í haldi lögreglu, grunaðir um manndráp og einn þeirra auk þess um vopnalagabrot eftir að 21 árs gamall maður var skotinn til bana í bifreið í eða nálægt Björk-göngunum í suðurhluta Stokkhólms síðdegis á fimmtudag. Fannst maðurinn látinn í göngunum.
Veltu sænskir fjölmiðlar vöngum yfir því um tíma hvort um slysaskot hefði verið að ræða, en Daniel Jonsson, ákæruvaldsfulltrúi lögreglunnar, vísar því nú á bug. Voru þremenningarnir handteknir skömmu eftir atburðinn ekki langt frá vettvangi og er einn þeirra, sem fyrr segir, grunaður um brot á vopnalögum auk manndráps.
„Kringumstæðurnar eru þær að við tengjum hann við vopn,“ segir Jonsson við sænska ríkisútvarpið SVT en vill þó ekki geta þess um hvers konar vopn þar sé að ræða. Varð atburðurinn á háannatíma í síðdegisumferðinni og varð mikið öngþveiti þegar lögregla lokaði fyrir umferð í um tvær klukkustundir, þó mun lengur í Hammarby-göngunum skammt frá sem lokuð voru langt fram eftir kvöldi.
Hefur lögregla varist allra frétta af rannsókninni, aðeins staðfest að handtökurnar hafi átt sér stað og yfirheyrslur séu hafnar yfir grunuðu auk þess sem skýrslur hafi verið teknar af vitnum.
SVTII (af atburðum á fimmtudaginn)
Dagens nyheter (læst áskriftargrein)