Roberto Jefferson, fyrrverandi leiðtogi brasilíska verkamannaflokksins PTB, er í haldi lögreglu í sveitarfélaginu Comendador Levy Gasparian þar í landi, skammt frá höfuðborginni Rio de Janeiro, eftir að hann varpaði handsprengjum að lögregluþjónum sem hugðust handtaka hann á heimili hans auk þess að skjóta fjölda riffilskota að þeim.
Þetta gerðist á sunnudag þegar til stóð að handtaka Jefferson sem reyndar var þegar í stofufangelsi. Að skipan Hæstaréttar skyldi handtaka gamla flokksleiðtogann, sem er 69 ára gamall, fyrir að móðga Cármen Lucía, dómsforseta réttarins, en stofufangelsið var fyrir að hóta henni.
Jefferson er stuðningsmaður Jair Bolsonaro forseta sem lýsti vanþóknun sinni á háttsemi Jeffersons og kvað þá sem skytu að lögreglu eiga heima í fangaklefa. Lögregluþjónarnir tveir, sem komu á heimili, Jeffersons, særðust þegar þeir urðu fyrir sprengjubrotum en sár þeirra reyndust ekki alvarleg.
Ólga er í brasilískum stjórnmálum fyrir aðra umferð forsetakosninganna á sunnudaginn kemur þar sem hinn hægrisinnaði Bolsonaro etur kappi við vinstrimanninn Luiz Inácio Lula da Silva. Sá síðarnefndi var talinn sigurstranglegri en náði ekki tilskildum 50 prósentum atkvæða í fyrri umferð kosninganna sem nægt hefðu til að blása síðari umferðina af.