Heitir því að lagfæra mistök Truss

Rishi Sunak fyrir framan Downingstræti 10 í morgun.
Rishi Sunak fyrir framan Downingstræti 10 í morgun. AFP/Daniel Leal

Rishi Sunak, sem er nýtekinn við sem forsætisráðherra Bretlands, sagðist í ræðu sem hann hélt fyrir framan Downingstræti 10 að breska þjóðin standi frammi fyrir djúpstæðum efnahagslegum vanda. „Eftirstöðvar Covid-19” eru enn til staðar,” sagði hann.

Sunak bætti við að Liz Truss, fráfarandi forsætisráðherra, hafi gert rétt með því að ætla að bæta efnahag landsins en að mistök hafi verið gerð.

„Ekki vegna ills ásetnings, heldur þvert á móti. En mistök voru gerð engu að síður,” sagði Sunak, en þau sneru að fyrirhuguðum skattalækkunum. Hann sagðist ætla að lagfæra einhver af þeim mistökum sem Truss gerði. „Sú vinna hefst þegar í stað.”

Sunak fyrir framan Downingstræti í morgun.
Sunak fyrir framan Downingstræti í morgun. AFP/Justin Tallis

Ætlar að sameina þjóðina

Hann sagðist ætla að standa sig í stykkinu sem forsætisráðherra og bætti við að hann ætlaði ekki að skilja næstu kynslóð eftir með „skuldir til að greiða vegna þess að við vorum sjálf of máttlítil til að greiða þær”.

„Ég ætla að sameina þjóðina okkar, ekki með orðum heldur með gjörðum,” sagði Sunak.

Hann hélt áfram: „Traust er eitthvað sem maður ávinnur sér og ég ætla mér að ávinna mér ykkar traust.”

Sunak þakkaði jafnframt Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir „ótrúlega góða frammistöðu” í embætti.

Jafnframt hét Sunak því að aðstoða Úkraínu í baráttunni við rússneskar hersveitir. Hann sagði stríðið í Úkraínu „hræðilegt stríð sem verður að ljúka með farsælum hætti”.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert