„Kirkjugarðsmorðinginn“ strauk úr fangelsi

Juha Veikko Valjakkala eftir manndrápin í Svíþjóð 1988.
Juha Veikko Valjakkala eftir manndrápin í Svíþjóð 1988. Ljósmynd/Finnska lögreglan

Nikita Bergenström, sem áður bar nöfnin Juha Veikko Valjakkala, Aslak Valdemar Ahonen og Nikita Joakim Fouganthine, tókst að brjóta sér leið út úr Kerava-fangelsinu í samnefndum bæ í Finnlandi. Þetta staðfestir Marko Oresmaa, deildarstjóri í fangelsinu, við finnska dagblaðið Ilta-Sanomat. Meðan á vinnslu fréttarinnar stóð var Bergenström handtekinn á ný.

Bergenström á sér brotaferil sem nær yfir á fjórða áratug en hefur frá árinu 1988 verið þekktur undir viðurnefninu kirkjugarðsmorðinginn eftir að hann myrti þriggja manna fjölskyldu í kirkjugarði í sænska bænum Åmsele.

Hafði Bergenström, sem þá hét Juha Valjakkala, en hann hefur skipt þrisvar sinnum um nafn, þá nýverið lokið afplánun fyrir ýmis afbrot í Finnlandi og þvældist með þáverandi kærustu sinni, Maritu Routalammi, um Skandinavíu.

Feðgar skotnir af stuttu færi

Í Åmsele stal hann reiðhjóli í eigu téðrar fjölskyldu og veittu feðgarnir Sten og Fredrik Nilsson honum þá eftirför og náðu honum í kirkjugarði skammt frá. Dró Valjakkala þá upp haglabyssu er hann hafði í fórum sínum og skaut feðgana til bana af stuttu færi. Er móðirin og eiginkonan, Ewa Nilsson, fór að svipast um eftir feðgunum rakst hún á Valjakkala skammt frá kirkjugarðinum og skar hann hana á háls.

Þau Routalammi héldu för sinni áfram eins og ekkert hefði í skorist og komust til Óðinsvéa í Danmörku þar sem þau voru handtekin viku síðar. Við réttarhöldin reyndi Valjakkala að skella skuldinni á kærustu sína en dómendur daufheyrðust við því

Hlaut Valjakkala lífstíðardóm fyrir manndrápin þrjú sem var hans tólfti refsidómur um ævina. Þegar árið 1991 reyndi hann að flýja. Í apríl 1994 tókst honum að flýja úr Riihimäki-fangelsinu með því að taka enskukennara fanganna í gíslingu en var gripinn eftir stuttan flótta.

Reyndi að hengja sig

Næsti flótti átti sér stað árið 2002 úr Pyhäselkä-fangelsinu og tókst honum þá að komast til Svíþjóðar með þáverandi eiginkonu sinni en var handtekinn í stórri lögregluaðgerð í Långträsk. Reyndi hann að hengja sig í klefa sínum er hann sneri aftur í afplánun en hafði ekki erindi sem erfiði.

Frelsið í kjölfar flótta úr Sukeva-fangelsinu árið 2004 var skammvinnt, var hann gripinn á ný eftir 19 mínútur og komst innan við kílómetra frá fangelsinu. Árið 2006 strauk hann svo enn einu sinni en var tekinn tveimur dögum síðar.

Nikita Bergenström, áður Juha Veikko Valjakkala, Aslak Valdemar Ahonen og …
Nikita Bergenström, áður Juha Veikko Valjakkala, Aslak Valdemar Ahonen og Nikita Joakim Fouganthine, best þó þekktur sem kirkjugarðsmorðinginn, var á flótta í Finnlandi eftir að hafa flúið úr fangelsi í dag. Hann var gripinn á meðan þessi frétt var skrifuð. Ljósmynd/Finnska lögreglan

Þrátt fyrir þennan skrautlega flóttaferil var hann náðaður eftir 20 ár innan múranna og sleppt úr haldi árið 2008, þá sem Nikita Joakim Fouganthine. Þó á reynslulausn. Það entist í þrjá mánuði en þá var Fouganthine handtekinn eftir æsilegan bílaeltingarleik. Sakargiftirnar voru akstur leigubifreiðar án leyfis til slíks, bílþjófnaður og háskaakstur.

Lauk hann afplánun í febrúar 2009 og hafði þá að eigin sögn tekið til við ritun sjálfsævisögu sinnar. Var nú allt með kyrrum kjörum að mestu þar til Bergenström, eins og hann heitir frá 2013, hlaut dóm fyrir þjófnað, ölvunarakstur, akstur án ökuréttinda, notkun rangra persónuupplýsinga og mótþróa við handtöku árið 2020 og er það afplánun þess dóms sem hann strauk úr í dag. Var Bergenström handtekinn rétt í þessu eins og eftir fyrri flótta sína.

Ilta-Sanomat (á finnsku)

VG (á norsku)

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert