„Kirkjugarðsmorðinginn“ strauk úr fangelsi

Juha Veikko Valjakkala eftir manndrápin í Svíþjóð 1988.
Juha Veikko Valjakkala eftir manndrápin í Svíþjóð 1988. Ljósmynd/Finnska lögreglan

Nikita Ber­genström, sem áður bar nöfn­in Juha Veik­ko Valjakka­la, Aslak Valdemar Ahon­en og Nikita Joakim Foug­ant­hine, tókst að brjóta sér leið út úr Kera­va-fang­els­inu í sam­nefnd­um bæ í Finn­landi. Þetta staðfest­ir Mar­ko Or­es­maa, deild­ar­stjóri í fang­els­inu, við finnska dag­blaðið Ilta-Sanom­at. Meðan á vinnslu frétt­ar­inn­ar stóð var Ber­genström hand­tek­inn á ný.

Ber­genström á sér brota­fer­il sem nær yfir á fjórða ára­tug en hef­ur frá ár­inu 1988 verið þekkt­ur und­ir viður­nefn­inu kirkju­g­arðsmorðing­inn eft­ir að hann myrti þriggja manna fjöl­skyldu í kirkju­g­arði í sænska bæn­um Åmsele.

Hafði Ber­genström, sem þá hét Juha Valjakka­la, en hann hef­ur skipt þris­var sinn­um um nafn, þá ný­verið lokið afplán­un fyr­ir ýmis af­brot í Finn­landi og þvæld­ist með þáver­andi kær­ustu sinni, Ma­ritu Routalammi, um Skandi­nav­íu.

Feðgar skotn­ir af stuttu færi

Í Åmsele stal hann reiðhjóli í eigu téðrar fjöl­skyldu og veittu feðgarn­ir Sten og Fredrik Nils­son hon­um þá eft­ir­för og náðu hon­um í kirkju­g­arði skammt frá. Dró Valjakka­la þá upp hagla­byssu er hann hafði í fór­um sín­um og skaut feðgana til bana af stuttu færi. Er móðirin og eig­in­kon­an, Ewa Nils­son, fór að svip­ast um eft­ir feðgun­um rakst hún á Valjakka­la skammt frá kirkju­g­arðinum og skar hann hana á háls.

Þau Routalammi héldu för sinni áfram eins og ekk­ert hefði í skorist og komust til Óðinsvéa í Dan­mörku þar sem þau voru hand­tek­in viku síðar. Við rétt­ar­höld­in reyndi Valjakka­la að skella skuld­inni á kær­ustu sína en dóm­end­ur dauf­heyrðust við því

Hlaut Valjakka­la lífstíðardóm fyr­ir mann­dráp­in þrjú sem var hans tólfti refsi­dóm­ur um æv­ina. Þegar árið 1991 reyndi hann að flýja. Í apríl 1994 tókst hon­um að flýja úr Rii­himäki-fang­els­inu með því að taka ensku­kenn­ara fang­anna í gísl­ingu en var grip­inn eft­ir stutt­an flótta.

Reyndi að hengja sig

Næsti flótti átti sér stað árið 2002 úr Pyhä­selkä-fang­els­inu og tókst hon­um þá að kom­ast til Svíþjóðar með þáver­andi eig­in­konu sinni en var hand­tek­inn í stórri lög­regluaðgerð í Långträsk. Reyndi hann að hengja sig í klefa sín­um er hann sneri aft­ur í afplán­un en hafði ekki er­indi sem erfiði.

Frelsið í kjöl­far flótta úr Su­keva-fang­els­inu árið 2004 var skamm­vinnt, var hann grip­inn á ný eft­ir 19 mín­út­ur og komst inn­an við kíló­metra frá fang­els­inu. Árið 2006 strauk hann svo enn einu sinni en var tek­inn tveim­ur dög­um síðar.

Nikita Bergenström, áður Juha Veikko Valjakkala, Aslak Valdemar Ahonen og …
Nikita Ber­genström, áður Juha Veik­ko Valjakka­la, Aslak Valdemar Ahon­en og Nikita Joakim Foug­ant­hine, best þó þekkt­ur sem kirkju­g­arðsmorðing­inn, var á flótta í Finn­landi eft­ir að hafa flúið úr fang­elsi í dag. Hann var grip­inn á meðan þessi frétt var skrifuð. Ljós­mynd/​Finnska lög­regl­an

Þrátt fyr­ir þenn­an skraut­lega flótta­fer­il var hann náðaður eft­ir 20 ár inn­an múr­anna og sleppt úr haldi árið 2008, þá sem Nikita Joakim Foug­ant­hine. Þó á reynslu­lausn. Það ent­ist í þrjá mánuði en þá var Foug­ant­hine hand­tek­inn eft­ir æsi­leg­an bíla­elt­ing­ar­leik. Sak­argift­irn­ar voru akst­ur leigu­bif­reiðar án leyf­is til slíks, bílþjófnaður og háska­akst­ur.

Lauk hann afplán­un í fe­brú­ar 2009 og hafði þá að eig­in sögn tekið til við rit­un sjálfsævi­sögu sinn­ar. Var nú allt með kyrr­um kjör­um að mestu þar til Ber­genström, eins og hann heit­ir frá 2013, hlaut dóm fyr­ir þjófnað, ölv­unar­akst­ur, akst­ur án öku­rétt­inda, notk­un rangra per­sónu­upp­lýs­inga og mótþróa við hand­töku árið 2020 og er það afplán­un þess dóms sem hann strauk úr í dag. Var Ber­genström hand­tek­inn rétt í þessu eins og eft­ir fyrri flótta sína.

Ilta-Sanom­at (á finnsku)

VG (á norsku)

Expressen

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert