Sextán ára piltur skotinn til bana í Svíþjóð

Sænski ríkislögreglustjórinn segir að morðið gæti tengst starfsemi glæpagengja. Mynd …
Sænski ríkislögreglustjórinn segir að morðið gæti tengst starfsemi glæpagengja. Mynd úr safni. AFP

Sextán ára piltur var skotinn til bana í bænum Sandviken í Svíþjóð í gærkvöldi. Vegfarandi kom að piltinum þar sem hann lá á hjólreiðastíg rétt fyrir klukkan 23 og hóf endurlífgunartilraunir meðan hann beið eftir að lögregla og sjúkrabíll kæmu á vettvang. 

Þær tilraunir báru þó ekki árangur og var pilturinn úrskurðaður látinn eftir komu á spítalann. Sænska ríkisútvarpið (SVT) greinir frá. 

Rannsókn á morðinu er hafin en enginn hefur verið færður í gæsluvarðhald.

Möguleg tengsl við glæpagengi

Fyrr um kvöldið hafði lögreglunni borist tilkynning um slagsmál í miðbæ Sandvikan en þegar lögreglu bar að garði var ekkert að sjá. Ekki liggur fyrir hvort pilturinn hafi átt einhvern þátt í þeim. 

„Eins og er bendir ekkert til þess að tengsl séu á milli [slagsmálanna og morðsins] en við verðum auðvitað að rannsaka það,“ sagði Magnus Jansson Klarin, talsmaður lögreglunnar, við SVT í morgun.

Á blaðamannafundi í morgun sagði Anders Thornberg ríkislögreglustjóri að morðið gæti tengst starfsemi glæpagengja. Hann kvaðst þó ekki geta tjáð sig frekar um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert