Aurskriður og skyndiflóð í suðurhluta Filippseyja í dag hafa valdið því að 67 eru taldir látnir samkvæmt upplýsingum filippeyskra yfirvalda sem greint var frá af fréttastofu AFP áðan.
Björgunarmenn keppast nú við að reyna að bjarga fólki frá fjallaþorpum sem eru grafin í leðju eftir miklar rigningar og aurskriður eftir að hitabeltisstormurinn Nalgae gekk yfir í nótt með tilheyrandi rigningarflóði. Verst var ástandið á eyjunni Mindanao í fjallaþorpunum í nálægð borgarinnar Cobato þar sem 300 þúsund manns búa.
Í þorpinu Kusiong var mannfallið gríðarlegt, og þegar búið að staðfesta andlát 50 þorpsbúa. Í nálægum bæjum féllu aurskriður líka þar sem áðan var búið að finna 17 sem höfðu látist.
Ennþá er 11 saknað og 31 eru særðir samkvæmt opinberum tölum.
Stormurinn gekk yfir Mindanao eyju í nótt, en í morgun urðu skyndiflóð sem komu íbúum á óvart. Björgunarmenn voru á gúmmíbátum að reyna að ná til fólks sem hafði leitað undan vatnselgnum upp á þök húsa í þorpunum.
Á síðustu árum hafa skyndiflóð sökum hitabeltisstorma, ásamt aur og braki frá skógi vöxnum fjallshlíðum, verið ein mesta náttúruváin á Filippseyjum.
Búist er við að það gæti rignt meira í dag en að Nalgae stormurinn verði kominn yfir til Samar eyju með kvöldinu. Búið er að rýma þorp og bæi þar sem búist er við að stormurinn fari yfir og er þegar búið að færa sjö þúsund manns fá hættusvæðum og hefur herlið Filippseyja aðstoðað íbúa við flutningana.