Allir bílar rafknúnir í ESB eftir 2035

AFP/Patrick T. Fallon

Samkomulag náðist innan Evrópusambandsins í gær um löggjöf um að hætta í áföngum að leyfa sölu nýrra bensín- og díselbíla fram til ársins 2035, þegar þeir verði alfarið bannaðir í sambandinu segir í frétt frá AFP-fréttaveitunni. Fundur fulltrúa leiðtogaráðsins og Evrópuþingsins hófst í gær þar sem rætt var um skref til í átt að kolefnishlutlausri framtíð í álfunni.

„Söguleg ákvörðun“

„Við höfum nýlokið viðræðum um útlosun gróðurhúsalofttegunda fyrir bíla,“ tísti Pascal Canfin  formaður Umhverfisnefndar Evrópuþingsins í gær. „Söguleg ákvörðun Evrópusambandsins í loftlagsmálum með endanleg markmið um null prósent losun ökutækja árið 2035 og áföngum 2025 til 2030.“

Í Evrópusambandinu mælist að 15% koldíoxíðmengunar megi rekja til bíla en nái upp í 25% ef allar samgöngur í lofti og láði eru teknar með.

Hætta að selja nýja bensín- og dísilbíla í áföngum

Ákvörðunin í gær er byggð á tillögum Evrópusambandsins frá því í júlí 2021 þar sem hvatt var til að setja þessi markmið fyrir 2035 sem samþykkt var í gær.

Þetta þýðir að sala nýrra bensín-og dísilbíla, léttra atvinnubíla og tvinnbíla í Evrópusambandinu mun hætta í áföngum og stöðvast í reynd fyrir árið 2035, og allir bílar verði rafknúnir eftir það.

Ursula von der Leyen, framkvæmdastjóri framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði samkomulagið „mikilvægan áfanga til að ná markmiði okkar í loftslagsmálum árið 2030“

Innviðir þurfa að vera til staðar

Undantekning frá þessari reglu er hið svokallaða Ferrari ákvæði sem nær til bílaframleiðenda sem framleiða lúxusbíla og færri en 10 þúsund eintök á ári. Bílaframleiðendur sem falla í þennan flokk geta haft bensínvélar fram til ársloka 2035, en þá er líka ballið búið.

AFP/Ronny Hartmann

 

Oliver Zipse, forstjóri BMW, sem jafnframt er forseti Samtaka evrópskra bílaframleiðenda (ACEA) sagði ákvörðunina „mjög harða og víðtæka“, en sagði að evrópski bílaiðnaðurinn myndi mæta þessari áskorun og bjóða upp á rafknúna bíla og sendibíla.

Hann benti samt á að ýmislegt þyrfti að breytast til þess að hægt væri að ná þessu markmiði, eins og aðgengi að mikilli endurnýjanlegri raforku og vel smurt innviðakerfi rekið af opinberum og einkaaðilum með hleðslustöðvum.

Áhyggjur af samkeppnisstöðu

Íhaldssamir ráðamenn og fulltrúar Þýskalands voru hikandi að setja svona stíf markmið því þeir óttuðust um stöðu evrópskra bílaframleiðenda í samkeppni við alþjóðlega framleiðendur sem þyrftu ekki að lúta jafn hörðum markmiðum.

Nú eru um 12 prósent nýrra bíla seldir í Evrópusambandinu rafknúnir en neytendur eru stöðugt meira að færa sig í þessa átt vegna hækkandi bensínverðs.

Á sama tíma stefna Kínverjar á að a.m.k. helmingur allra nýrra bíla verði rafknúinn, eða tvinnbílar eða vetnisknúnir fyrir árið 2035.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert