Dalsysturnar kalla þær sig, „Sisters of the Valley“, og draga heitið af Central Valley í Kaliforníu þar sem þær halda til í Merced-sýslu. Fleiri þekkja þær þó undir heitinu „gras-nunnurnar“ eða „The Weed Nuns“ þar sem þær rækta kannabisplöntur og vinna afurðir þeirra yfir í CBD-olíu.
Systir Kate, sem hefur orð fyrir hópnum, segir þær hafa valið sér flókinn iðnað. „Hér er mikið um línudans og hliðarstökk,“ segir hún og vísar til flókins og margþætts lagabókstafs Kaliforníu hvað kannabisefni snertir.
Þar í ríkinu var notkun kannabisefna í lækningaskyni leyfð með lögum árið 1996 og almenn notkun 2016. Svo einfalt er málið þó ekki. Lagabókstafurinn inniheldur hvort tveggja flækjur og lykkjur, eða „loopholes“.
Þannig hafa tveir þriðju hlutar kalifornískra borga lagt bann við atvinnurekstri tengdum kannabisefnum en í öðrum borgum hefur veiting leyfa til slíks verið gerð mjög torsótt. Ræktun systranna í Merced er á ólöglegu svæði. Þar í sýslunni er ólöglegt að rækta kannabisplöntur þótt leyfilegt sé að neyta efnanna.
„Lögreglan veit það mætavel, en hún sér í gegnum fingur við okkur með þetta,“ segir systir Kate, „en hún hefur í raun enga ástæðu til að láta okkur komast upp með þetta [...] Ég held að þeir [lögreglan] viti að við munum láta reyna á lögin [sem gilda í Merced] fyrir rétti og í kjölfarið yrði þeim breytt. Ég held að það sé slagur sem þeir vilja ekki taka,“ heldur systirin áfram.
Hún sýnir fréttamanni breska ríkisútvarpsins BBC hvar systir Camilla hellir CBD-olíu, eða hampolíu, í litlar flöskur. Systurnar selja efni og smyrsl úr CBD sem notið hefur vaxandi vinsælda meðal til dæmis íþróttafólks eins og fram kom í viðtali Morgunblaðsins við íslenskan CBD-framleiðanda haustið 2020.
Viðtal við Henry Kristófer Harðarson hjá MEON
Velti framleiðsla systranna 1,2 milljónum dala, jafnvirði 171 milljónar króna, áður en kórónuveiran skellti heiminum í lás hér um árið. Þær eru nú komnar upp í helming þeirrar upphæðar eftir hamfarirnar og eru iðnar við að biðja fyrir uppskeru sinni. Helst vilja þær komast hjá því að selja gegnum dreifingaraðila sem hefði ekkert annað í för með sér en þykkari reglugerðafrumskóg og hærri skatta.
Skammt frá, í miðbæ Merced, rekur Joel Rodriguez kannabisverslun sem þar er löglegur rekstur, hann má bara ekki rækta sjálfur. Fjöldi skatta, sem Kaliforníuríki hefur lagt á birgðaflutningakeðju kannabisefna, er hins vegar að ríða honum á slig.
„Við þurfum að búa við skattana auk alls konar fyrirbæra, sem þeir sem selja á svörtum markaði eru lausir við, svo sem trygginga og margs fleira. Við getum ekki afskrifað þetta og þetta skilar sér að lokum út í kaupverðið til viðskiptavina,“ segir Rodriguez.
Segir hann aðeins umsóknina um smásöluleyfi kannabisefna í Kaliforníu kosta 1.000 dali, jafnvirði rúmlega 143.000 króna. Fáist umsóknin samþykkt taki við endalaus önnur gjöld sem nemi tugum þúsunda dala á ári fyrir minni fyrirtæki og allt að 100.000 dölum, 14,2 milljónum íslenskra króna, fyrir þau stærri.
Sölumaður, sem selur ólöglega á götunni og BBC ræddi við, segist hvort tveggja geta boðið betri vöru og halað inn meiri gróða með því að starfa utan laganna. „Bara að reyna að fá þetta leyfi kostar þig milljón dollara og í þessum bransa geturðu náð þér í slíka upphæð bara með því að gera vöruna aðgengilega þeim sem ekki eiga greiðslukort eða eiga ekki bíl til að fara og heimsækja klúbbana,“ segir sölumaðurinn.
Ólögleg kannabissala í Kaliforníu nam átta milljörðum dala í fyrra, sem jafngilda 1.140 milljörðum íslenskra króna. Er það tvöföld velta löglegu hliðar sölunnar sama ár.
Ruben Chavez, lögreglustjóri í Gustine, skammt frá, segir skatttekjur af löglegri kannabissölu nýtast til að berjast gegn skuggahliðinni, ólöglegu sölunni. „Við þurfum að gera þeim sem gera þetta löglega auðveldara fyrir, auðvelda þeim að framleiða vöruna án þess að þurfa að fara gegnum svona flókið ferli,“ segir Chavez.
Það sem af er þessu ári hafa skatttekjur Kaliforníuríkis af kannabisiðnaðinum náð tæplega 580 milljónum dala, jafnvirði tæplega 83 milljarða króna, og telur lögreglustjórinn að einfaldara kerfi skilaði meiru og gerði þar með meira til að styðja við baráttu hans og samstarfsfólksins við ólöglega sölu kannabisefna.
Systir Kate á lokaorðið: „Í sannleika sagt vildi ég óska þess að þeir leyfðu okkur þetta, það væri sigur. Vegna þess að við trúum á að greiða skatta.“
Fyrir neðan hlekkina má sjá þátt MarketWatch um Dalsysturnar og starf þeirra.