Kínversk stjórnvöld eru sögð hafa komið upp tveimur ólöglegum „lögreglustöðvum“ í Hollandi sem reknar eru undir merkjum kínversku utanríkisþjónustunnar. Tilgangur stöðvanna er meðal annars að stöðva kínverska andófsmenn sem búsettir eru utan Kína.
Þetta er niðurstaða hollenskra fjölmiðla í kjölfar rannsóknar þeirra, að því er fram kemur í umfjöllun BBC. Fullyrða þeir að fyrir liggi sönnun fyrir slíkri starfsemi á vegum kínverskra yfirvalda.
Hollenska utanríkisráðuneytið upplýsir BBC að tilvist óformlegra útvarða á vegum löggæsluyfirvalda annars lands væri ólögleg. Kínversk stjórnvöld hafa hins vegar neitað ásökunum sem fram hafa komið í Hollandi.
Rannsókn miðlanna á starfi kínverskra útsendara í landinu kom til vegna skýrslu spænsku samtakanna Safeguard Defenders sem birt var undir heitinu „Stjórnlaus alþjóðleg kínversk löggæsla“ (e. Chinese Transnational Policing Gone Wild).
Þar er fullyrt að almannaöryggisstofnanir tveggja kínverskra umdæma hafi komið á laggirnar 54 „erlendum þjónustumiðstöðvum lögreglunnar“ sem staðsettar eru í fimm heimsálfum og 21 ríki. Flestar stöðvarnar eru í Evrópu, þar af níu á Spáni, fjórar á Ítalíu og þrjár í Bretlandi.
Engin slík miðstöð er sögð vera starfrækt á Íslandi í skýrslunni og aðeins ein á Norðurlöndunum og er hún sögð í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar.
Fréttastofa RTL í Hollandi og Follow the Money, samstarfshópur rannsóknarblaðamanna, segja frá því að fyrir liggja gögn sem sýna fram á að starfræktar hafa verið kínverskar lögreglustöðvar í Hollandi að minnsta kosti frá árinu 2018.
Kínverski andófsmaðurinn Wang Jingyu kveðst eltur af kínversku lögreglunni í Hollandi. Segir hann meðal annars frá því að hafa fengið símtal frá einstaklingi sem hafi sagst starfa fyrir „lögreglustöð“ og að hann hafi verið hvattur til að snúa aftur til Kína í þeim tilgangi að „leysa úr mínum vandamálum. Og hugsa um foreldra mína.“
Kveðst hann í kjölfar símtalsins hafa þurft að þola kerfisbundið áreiti og hótanir sem Wang er sannfærður að skipulagt sé af kínverskum stjórnvöldum.
Maxime Hovenkamp, talskona hollenska utanríkisráðuneytisins, segir við BBC að hollenskum yfirvöldum hafi ekki verið gert viðvart um slíka starfsemi á vegum Kína í gegnum hefðbundnar boðleiðir utanríkisþjónustunnar og slík starfsemi væri með öllu ólögleg. Hún sagði tilefni væri til að rannsaka málið frekar og síðan ákveða hver viðbrögðin ættu að vera.
„Það er mikið áhyggjuefni að kínverskur ríkisborgari hefur greinilega orðið fyrir hótunum og áreitni hér í Hollandi. Lögreglan skoðar nú möguleika til að veita honum vernd,“ er haft eftir Hovenkamp.
Wang Wenbin, talsmaður kínverskra yfirvalda á sviði utanríkismála, sagði á miðvikudag að það sem lýst hefði verið sem lögreglustöðvum erlendis „eru í raun þjónustumiðstöðvar fyrir kínverska ríkisborgara erlendis“ og að Kína virti fullkomlega fullveldi annarra ríkja.