Stórmeistarinn Hans Niemann mun tefla á fyrsta borði fyrir bandaríska skáklandsliðið á heimsmeistaramóti landsliða sem haldið verður í Jerúsalem í Ísrael þann 19.-26. nóvember.
Hinn 19 ára Niemann er áttundi stigahæsti Bandaríkjamaðurinn og sætir því furðu að hann tefli á fyrsta borði. Hvert lið er skipað fjórum mönnum og teflir fyrsta borð við fyrsta borð andstæðingsins og þannig koll af kolli.
Carlsen mun ekki þurfa að mæta Niemann í mótinu þar sem Noregur er ekki á meðal þeirra 12 landa sem hafa þáttökurétt. Ofurstórmeistarinn Anish Giri teflir á fyrsta borði fyrir hönd Hollands en sá hefur sagst spenntur að mæta Niemann.
Bandaríska liðið er skipað Niemann, Lazarp Bruzon, Alexander Onischuk, Varuzhan Akobian og Yuniesky Quesada Perez. John Donaldson þjálfar og velur í liðið.
Hafa spekingar velt því fyrir sér hvort stigahærri skákmenn á borð við Fabiano Caruana og Hikaru Nakamura hafi neitað að tefla við hlið Niemanns.
Hefur hann verið sakaður um að svindla á skákmótum oftar en einu sinni, jafnvel 200 sinnum ef marka má skýrslu Chess.com. Niemann hefur meðal annars kært Magnus Carlsen, Hikaru Nakamura og Chess.com.
Ekki tefla þó öll lönd fram sínum sterkustu mönnum; kínverska landsliðið er til að mynda eingöngu mannað nýliðum. Ding Liren, sterkasti skákmaður Kínverja, tekur ekki þátt í mótinu.
Íslenskir skákspekingar eru ekki á einu máli um sök Niemanns. Björn Þorfinnsson, skákskýrandi og ritstjóri DV, sagðist í Dagmálum handviss um víðtækt svindl Niemanns en er þó ekki sannfærður um að Niemann hafi svindlað gegn Carlsen.