Borgaryfirvöld í Kerson, skipuð af Rússum, segja brottlflutning íbúa frá borginni formlega lokið.
„Skipulögðum aðgerðum við að ferja íbúa yfir Dnípró-ána og yfir til öruggra svæða í Rússlandi er lokið,“ sagði Sergei Aksjonóv, sem Rússar hafa skipað yfirmann Krímskaga, á Telegram í gærkvöldi.
Borgin Kerson er staðsett í Kerson-héraði, sem er eitt þeirra héraða er Rússar innlimuðu ólöglega í síðasta mánuði. Borgin féll snemma í hendur Rússa frá því að stríðið hófst en gagnsókn Úkraínumanna hefur gengið vel í héraðinu síðustu vikur og hefur heimamönnum tekist að fikra sig nær borginni.
Rússar hafa sakað Úkraínumenn undanfarna daga um að vera að skipuleggja árás á borgina og hafa hvatt íbúa til að flýja. Úkraínumenn hafa hafnað þeim ásökunum.
Þá hafa Rússar sömuleiðis verið að skipuleggja brottflutning íbúa og boðist til þess að ferja fólk yfir Dnípró.
Höfðu þeir áformað að flytja á bilinu 50 til 60 þúsund manns og var áætlað að brottflutningurinn myndi taka um sex daga.