Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fagnaði í dag kaupum auðkýfingsins Elon Musk á Twitter og sagði að samfélagsmiðillinn væri nú í höndunum á heilvita manni.
Musk, sem er auðugasti maður í heimi, gekk loks frá kaupunum í gær, en verðmiðinn á Twitter var 44 milljarðar dollara, eða sem samsvarar um 6.300 milljörðum króna. Mikil óvissa hafði verið undanfarna mánuði um það hvort eitthvað yrði af sölunni og ýmsar vangaveltur á reiki.
„Ég gleðst yfir því að Twitter er nú í höndunum á heilvita manni, og er ekki lengur rekið af vitskertum öfgavinstrimönnum og brjálæðingum sem virkilega hata landið okkar,“ skrifaði Trump á samfélagsmiðilinn Truth Social, sem hann á sjálfur.
Musk, sem er forstjóri og stofnandi Tesla, hefur sagt að hann myndi aflétta Twitter-banni Trumps sem var bolað út af miðlinum í kjölfar árásarinnar á bandaríska þinghúsið í ársbyrjun 2021. En Trump hefur verið sakaður um að hvetja til árásarinnar.
Margir aðgerðarsinnar hafa óttast yfirtöku Musk á Twitter en þeir telja að áreitni muni færast í aukana sem og falsfréttir. Musk er sjálfur þekktur fyrir að áreita aðra notendur á Twitter.
Twitter-notendur sem eru lengst til hægri á hinu pólitíska litrófi hafa, eins og Trump, fagnað sölunni. Þeir hafa birt ummæli á borð við „grímur gera ekkert gagn“ og önnur háðsyrði, en þeir telja líklegt að slakað verði á öllu eftirliti á Twitter.
„Twitter verður nú að gera gangskör að því að losa sig við öll gervimenni og gerviaðganga sem hafa stórskaðað miðilinn. Hann verður mun minni, en betri,“ sagði Trump.