„Hverjir byggðu leikvangana?“

Þjálfunarsvæði þýska landsliðsins í al-Ruwais, um 110 kílómetra norður af …
Þjálfunarsvæði þýska landsliðsins í al-Ruwais, um 110 kílómetra norður af Doha. Erlendir verkamenn hafa verið reknir út úr fjölda stórra íbúðarblokka í miðborg Doha svo leigja megi íbúðirnar áhorfendum er sækja munu heimsmeistarakeppnina sem hefst þar 20. nóvember. AFP/Jewl Samad

Yfirvöld í Katar hafa látið rýma fjölda stórra fjölbýlishúsa í miðborg höfuðborgarinnar Doha þar sem þúsundir verkamanna, einkum af asískum og afrískum uppruna, eru til húsa. Er þar um að ræða svæði í miðborginni þar sem knattspyrnuáhugafólk hvaðanæva mun dvelja meðan á heimsmeistarakeppninni stendur.

Keppnin hefst 20. nóvember og greinir Reuters-fréttastofan frá því að íbúarnir brottreknu sofi nú sumir hverjir á gangstéttum utan við heimili sín en húsunum hefur verið læst og er engum hleypt þar inn.

Íbúar einnar byggingarinnar, sem hýsti 1.200 manns, fengu tvær klukkustundir til að yfirgefa heimili sitt, frá klukkan 20 á miðvikudagskvöld að telja. Klukkan 20:30 mættu borgarstarfsmenn á staðinn, ráku þá út sem ekki voru þegar farnir og læstu að lokum útidyrum. Þá hefur rafmagn verið tekið af mörgum bygginganna.

Liður í „langtímaendurskipulagningu“

„Við eigum hvergi í hús að venda,“ sagði maður nokkur við Reuters á fimmtudaginn þar sem hann bjó sig undir að sofa aðra nótt undir berum himni en viðmælandinn hittist fyrir í hópi um tíu annarra sem norpuðu fáklæddir um gangstéttina skammt frá harðlæstum íbúðarblokkunum. Hvorki þessi viðmælandi né aðrir þorðu að koma fram undir nafni af ótta við refsiaðgerðir af hálfu yfirvalda eða vinnuveitenda.

Fimm manna hópur skammt frá var önnum kafinn við að koma dýnu og litlum kæliskáp upp á pallbíl. Kváðust mennirnir hafa fundið sér íbúð í Sumaysimah sem er um 40 kílómetra norður af Doha.

Embættismaður sem Reuters náði tali af vísaði því alfarið á bug að rýmingaraðgerðirnar hefðu nokkuð með knattspyrnu að gera, þær væru eingöngu liður í „langtímaendurskipulagningu svæða í Doha“. Öllum íbúum hefði verið komið í húsnæði annars staðar auk þess sem beiðnir um að rýma húsin í miðborginni hefðu verið lagðar fram með góðum fyrirvara.

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA vildi ekki tjá sig um málið við Reuters er eftir því var leitað og skipuleggjendur keppninnar í Katar bentu á stjórnvöld landsins þegar spurningum var beint til þeirra.

Til leigu

Um 85 prósent íbúa Katars eru erlendir verkamenn, margir hverjir bílstjórar og margir daglaunamenn sem eru sjálfir ábyrgir fyrir að útvega sér leiguhúsnæði. Þeir sem starfa hjá stórum byggingarverktökum dvelja hins vegar í gríðarstórum verkamannabúðum þar sem tugir þúsunda verkamanna hafast við.

Ætla stjórnvöld í Katar sér að bjóða tómu íbúðirnar til leigu meðan á heimsmeistarakeppninni stendur og hafa skipuleggjendur keppninnar þegar tekið að auglýsa íbúðir til leigu, svo sem í Al Mansoura og fleiri miðborgarhverfum þar sem verðið fyrir nóttina hleypur á 240 til 426 dölum, jafnvirði 34.500 til 61.350 íslenskra króna.

Rýmingaraðgerðirnar viðhalda „ríkmannlegri yfirborðsglæsimennsku Katars án þess að afhjúpa ódýra vinnuaflið sem gerir hana mögulega“ segir Vani Saraswathi, verkefnisstjóri hjá Migrants-Rights.org sem berst fyrir réttindum erlendra verkamanna í Mið-Austurlöndum.

„Nú er okkur bara hent í burtu“

Bílstjóri nokkur frá Bangladesh, Mohammed, segir Reuters að hann hafi búið í sama hverfinu í 14 ár þar til á miðvikudaginn þegar borgarstarfsmenn tjáðu honum að hann hefði 48 klukkustundir til að koma sér út úr einbýlishúsinu sem hann deildi með 38 öðrum íbúum.

Segir hann verkamönnunum, sem stilltu upp aðstöðunni fyrir knattspyrnukeppnina, mokað í burtu er nær dregur keppni. „Hverjir byggðu leikvangana? Hverjir lögðu vegina? Hverjir gerðu allt? Bengalar, Pakistanar. Fólk eins og við. Nú er okkur bara hent í burtu,“ segir Mohammed.

Reuters

AsiaOne

SBS News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert