Maurice Hastings sat saklaus bak við lás og slá í rúmlega 38 ár þar til ný sönnunargögn, byggð á erfðaefnisrannsóknum, leiddu sakleysi hans í ljós. Reyndist þá raunverulegi morðinginn hafa látist árið 2020 en var reyndar í fangelsi hvort sem var.
Það var árið 1983 sem Roberta Wydermyer fannst látin í farangursgeymslu bifreiðar sinnar í Kaliforníu. Hafði hún verið skotin einu skoti í höfuðið og nauðgað áður. Bárust böndin fljótlega að Hastings og krafðist saksóknari dauðarefsingar.
Kviðdómurinn komst ekki að einróma niðurstöðu og var réttað á ný í málinu. Sá kviðdómur sakfelldi Hastings árið 1988 og hlaut hann þá ævilangan dóm án möguleika á reynslulausn. Hastings fékk frelsið á ný 20. október, 69 ára gamall, eftir að hið sanna í máli hans kom í ljós.
„Réttarkerfið er ekki fullkomið og þegar við fáum ný sönnunargögn, sem sýna okkur fram á að sakfelling hefur verið röng, er það skylda okkar að bregða skjótt við,“ segir George Gascón, saksóknari í Los Angeles.
Beiðni Hastings um DNA-próf árið 2000 var hafnað og það var ekki fyrr en í fyrra sem endurskoðunarnefnd sakfellingarmála tók erindi hans til skoðunar. DNA-rannsókn á sæði, sem fannst á líkama Wydermyer, fór svo fram í júní á þessu ári.
Kom þá í ljós að sýnið gaf fulla DNA-svörun við mann sem sat inni fyrir vopnað rán og hafði einmitt lokað fórnarlamb sitt inni í farangursgeymslu bifreiðar. Sem fyrr segir lést sá í afplánun fyrir tveimur árum.
„Ég bað þess í mörg ár að þessi dagur rynni upp,“ segir Hastings við AP-fréttastofuna, „ég ásaka engan, ég ætla ekki að vera með einhverja biturð, nú langar mig bara að njóta lífsins á meðan ég á það,“ segir hann enn fremur, eftir tæplega fjóra áratugi saklaus bak við lás og slá.