Fjöldi þeirra sem fórust þegar mikill troðningur skapaðist á götum Seúl, höfuðborgar Suður-Kóreu, í gærkvöldi, er talinn vera yfir 150.
Hörmungarnar áttu sér stað þegar mikil mannmergð kom saman til að halda upp á fyrstu hrekkjavökuna eftir heimsfaraldur COVID-19.
Yoon Suk-yeol, forseti Suður-Kóreu, hét því í morgun að ítarleg rannsókn á málsatvikum myndi fara fram og að komið verði í veg fyrir að atburðurinn endurtaki sig.
Yfir hundrað sjúkrabílar voru kallaðir á vettvang í gær en samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu í Seúl slösuðust um 90 manns og er tala staðfestra dauðsfalla nú komin upp í 151, þar af eru 19 ferðamenn.
Flest fórnarlömbin eru konur á þrítugsaldri en að sögn Choi Seong-beom, innviðaráðherra landsins, á enn eftir að bera kennsl á flest líkin.