Brasilískir kjósendur velja sér forseta í síðari umferð þarlendra forsetakosninga í dag og er mjótt á munum milli hins þjóðernissinnaða hægrimanns Jair Bolsonaro forseta og jafnaðarmannsins Luiz Inácio Lula da Silva sem fór með sigur af hólmi í fyrri umferð kosninganna fyrir mánuði.
Lula er sjálfur fyrrverandi forseti landsins, vermdi þann stól árin 2003 til 2010. Skoðanakannanir eru honum heldur í vil en margir kjósendur telja valt að treysta um of á þær þar sem Bolsonaro eigi sér sterkan stuðningsher.
„Bolsonaro stendur fyrir allt sem ég er ekki og ég trúi ekki á,“ segir kjósandinn Ellen Monielle við breska ríkisútvarpið BBC og bendir á aukinn fjölda fólks sem á ekki til hnífs og skeiðar í landinu í stjórnartíð forsetans. Hefur hún nokkuð til síns máls þar sem nýleg athugun telur 33 milljónir Brasilíumanna, af 217, ekki fá nóg að borða.
„Já, hann er gamall hvítur karl,“ heldur hún áfram og á við fyrrverandi málmiðnaðarmanninn Lula sem er 77 ára gamall, tíu árum eldri en keppinauturinn, „en ég segi fólki á öllum mínum samfélagsmiðlum að kjósa Lula.“
Gustavo Ramp er á öndverðum meiði við löndu sína. „Manndrápum í landinu hefur fækkað í stjórnartíð Bolsonaros, fyrirtæki í ríkiseigu sem áður voru í taprekstri sigla nú lygnan sjó og öryggi almennings hefur aukist,“ segir Ramp sem var ellefu ára þegar Lula náði forsetakjöri árið 2003. Engu að síður kveðst hann vel muna spillingarmálin sem grasseruðu innan verkamannaflokks forsetans árin á eftir. Hlaut Lula fangelsisdóm fyrir spillingu og telur Ramp að það yrði Brasilíu til vansæmdar næði Lula kjöri á ný.
Að hans mati er Bolsonaro þó enginn óskakandídat. „Hann glímir við það alvarlega vandamál að hann talar of mikið,“ segir Ramp og vísar til ýmissa umdeildra yfirlýsinga forsetans, svo sem niðrandi ummæla í garð hinsegin fólks.
Eduardo Matos félagsfræðingur telur að lengra megi ganga í baráttunni við glæpi með hertri refsistefnu en hann hefur einkum fengist við rannsóknir á sviði afbrota og ofbeldis. Þykir honum miður að í Brasilíu viðgengst eitt mesta ofbeldi í heiminum.
Hann telur of mikillar miskunnsemi gæta í lagabókstafnum þrátt fyrir að refsingar hafi verið hertar í stjórnartíð Bolsonaros. Áður en hann kom til valda hefði dæmdur morðingi ekki þurft að búast við lengri dvöl en sjö árum bak við lás og slá í krafti afplánunarkerfis sem var mjög umburðarlynt gagnvart góðri hegðun í fangelsi.
Matos kveðst vilja sjá gangskör gerða í þeim efnum og að betrunarvist hafi varnaðaráhrif auk þess sem styrkja þurfi lögreglu landsins með það fyrir augum að fleiri afbrotamenn hljóti makleg málagjöld.