„Fólk lá ofan á öðru fólki, þetta voru mörg lög af fólki og þeir höfðu ekki mannskap til að hjálpa öllum,“ segir Jarmil Taylor, einn þriggja bandarískra hermanna sem lentu í banvænum troðningi á hrekkjavökuhátíð í Seúl í Suður-Kóreu í gær þar sem 153 létu lífið.
Rúmlega 100.000 manns sóttu hátíðina og voru Seúl-búar frelsinu fegnir eftir lokanir og takmarkanir heimsfaraldursins. Þremenningarnir, sem AFP-fréttastofan ræddi við, voru staddir í Itaewon-sundinu þar sem harmleikurinn átti sér stað og sluppu sjálfir að eigin sögn naumlega er síga tók á ógæfuhliðina.
„Fólk féll hvert á annað eins og dómínókubbar,“ lýsir Taylor atburðarásinni í gær. Fljótlega hafi fólk sem sat fast í þvögunni orðið skelfingu lostið sem ekki hafi bætt ástandið. „Öskur fólksins yfirgnæfðu öll önnur hljóð,“ segir Taylor og lýsir því hvernig þeir þremenningarnir hafi hafist handa við að draga meðvitundarlaust fólk út úr þvögunni og koma því til björgunarfólks og viðbragðsaðila sem hófu lífgunartilraunir.
„Við fórum með fjölda slasaðs fólks á skemmtistaði í nágrenninu og lögðum það á gólf. Gólfin voru þakin fólki,“ lýsir Taylor, en þeir þremenningarnir gegna herskyldu við Casey-herstöðina í Gyeonggi. Um 27.000 bandarískir hermenn eru í Suður-Kóreu vegna ógnarinnar frá nágrannanum í norðri.
Taylor og lagsmenn hans unnu hörðum höndum alla nóttina við að draga fólk út úr hrúgunni í sundinu en sem fyrr segir kostaði atvikið 153 mannslíf, flest þeirra líf ungra kvenna sem ekki höfðu bolmagn til að koma sér undan þunganum sem á þær lagðist.
„Við erum ekki smávaxnir en við vorum við það að kremjast saman áður en við náðum að koma okkur út úr þessu,“ lýsir hermaðurinn, „fólkið fremst í hópnum var allt komið í götuna og myndaði þar hindrun sem erfitt var að komast yfir, þar hrúgaðist fólkið upp [...] Þegar við fórum af vettvangi voru lík alls staðar, alls staðar,“ segir Taylor og kveðst þakka fyrir að þeir félagar lifðu af.