Söng Hotel California í Guantanamo

Saif Ulla Paracha sat tæp 20 ár í Guantanamo og …
Saif Ulla Paracha sat tæp 20 ár í Guantanamo og var farinn að raula þar lagstúf úr Hotel California með The Eagles fyrir munni sér að sögn lögmanns hans. Af því hóteli var almælt að menn gætu skráð sig út en hins vegar gætu þeir aldrei farið þaðan. Ljósmynd/Twitter

Bandaríkjamenn hafa sleppt elsta fanga hins illræmda fangelsis við Guantanamo-flóa úr haldi. Er þar um að ræða Saif Ullah Paracha, 75 ára gamlan Pakistana er þar hefur setið allar götur síðan 2003 en þá var hann handtekinn fyrir meintan stuðning sinn við hryðjuverkasamtökin al-Kaída.

Var Paracha talinn hafa komið að fjármögnun samtakanna en neitaði því staðfastlega frá upphafi og fór að lokum svo að hann var aldrei ákærður.

Þegar mest var sátu nokkur hundruð manns í Guantanamo-fangelsinu, langflestir grunaðir um einhvers konar aðild eða aðkomu að hryðjuverkaárásunum alræmdu 11. september 2001. Það var í gær sem Pakistaninn fékk frelsi sitt á nýjan leik eftir tæp 20 ár bak við múrana.

Lögmaðurinn gagnrýnir tímann

„Herra Saif Ulla Paracha, pakistanskur ríkisborgari sem hafður var í haldi í Guantanamo Bay, hefur verið leystur úr haldi og kom til Pakistans laugardaginn 29. október 2022,“ segir í yfirlýsingu pakistanska utanríkisráðuneytisins. „Það gleður okkur að pakistanskur ríkisborgari, sem verið hefur í haldi erlendis, hafi loks sameinast fjölskyldu sinni á ný,“ segir þar enn fremur.

Lögmaður Paracha, Clive Stafford-Smith, gagnrýnir tímann sem það tók að sleppa skjólstæðingi hans lausum. „Heimild til að hleypa honum út var gefin út fyrir vel rúmu ári [...] hann var farinn að raula fyrir mér laglínuna úr Hotel California með The Eagles þar sem segir af því að þú getir skráð þig út þegar þú vilt en aldrei farið,“ segir Stafford-Smith í samtali við þáttinn Newshour í breska ríkisútvarpinu BBC.

Lögreglumenn bandarísku alríkislögreglunnar FBI handtóku Paracha í Taílandi í júlí 2003 í kjölfar þess að snara var lögð fyrir hann í tálbeituaðgerð. Hafði Pakistaninn áður verið við nám í Bandaríkjunum og var grunaður um að vera í samskiptum við hátt setta menn innan al-Kaída, svo sem Osama bin Laden heitinn og Khalid Sheikh Mohammed.

Sat Paracha til að byrja með 14 mánuði í fangelsi Bandaríkjahers í Bagram í Afganistan áður en hann var fluttur í Guantanamo-fangelsið.

35 enn í Guantanamo

Joe Biden Bandaríkjaforseti sætir nú þrýstingi í átt að því að leysa Guantanamo-fanga, sem ekki hafa verið ákærðir, úr haldi og flýta réttarhöldum þeirra sem réttað verður yfir vegna meintra tengsla við al-Kaída. Það var stjórn Bidens sem heimilaði í fyrra að Paracha yrði sleppt úr haldi og á sama tíma var Abdul Rabbani, einnig frá Pakistan, veitt sama heimild og Uthman Abdul al-Rahim Uthman frá Jemen.

Sitja þeir þó enn í fangelsinu ásamt 33 öðrum föngum, þar á meðal áðurnefndum Khalil Sheikh Mohammed sem kallaður hefur verið „höfuðarkitekt 9/11-árásanna“.

CNN

Al Jazeera

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert