Bandaríska alríkislögreglan hefur ákært David DePape fyrir að hafa reynt að ræna Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, í síðustu viku er hann braust inn á heimili hennar og réðst á eiginmann hennar, Paul Pelosi.
Lögregluyfirvöld hafa gefið út að DePape hafi haft límband, reipi og önnur áhöld meðferðis sem gefa til kynna að hann hafi ætlað að binda Pelosi er hann braust inn á heimili hennar á föstudag.
Í gögnum alríkislögreglunnar kemur fram að DePape teldi að Pelosi bæri ábyrgð á „lygunum sem kæmu frá Demókrataflokknum.“ Hann vildi halda henni í gíslingu á meðan hann ræddi við hana.
„Ef Nancy myndi segja DePape sannleikann þá myndi hann leyfa henni að fara, ef hún hefði logið þá ætlaði hann að brjóta hnéskeljarnar á henni,“ sagði í eiðsvarinni yfirlýsingu DePape.
Árásarmaðurinn er 42 ára gamall Kaliforníubúi sem hefur birt hægrisinnaðar samsæriskenningar á samfélagsmiðla.
Paul Pelosi, sem er 82 ára gamall, hringdi á neyðarlínuna og reyndi að ræða við árásarmanninn áður en DePape barði hann í höfuðið með hamri. Pelosi er nú á batavegi.
Depape sagði yfirvöldum að Paul hafi „tekið við refsingunni“ í stað eiginkonu sinnar, sem var stödd hinum megin á landinu þegar atburðurinn átti sér stað.
Hann var því ákærður fyrir að hafa reynt að ræna Nancy Pelosi og fyrir líkamsárás á Paul Pelosi. Verði hann fundinn sekur gæti hann átti yfir höfði sér 20 ára fangelsi fyrir mannránstilraunina og 30 ára fangelsi fyrir líkamsárásina.