„Ótrúleg endurkoma úr fangelsi“

Luiz Inácio Lula da Silva mætir á kjörstað í Sao …
Luiz Inácio Lula da Silva mætir á kjörstað í Sao Paulo í gær. Hann hafði Jair Bolsonaro undir en tæpt stóð það, 50,9 prósent atkvæða. AFP/Nelson Almeida

„Þetta var náttúrulega algjörlega hnífsegg og Bolsonaro, alla vega seinast þegar ég vissi, ekki búinn að játa sig sigraðan,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, um hnífjöfn forsetakosningaúrslit í Brasilíu í gær þar sem vinstrimaðurinn Luiz Inácio Lula da Silva rétt marði keppinaut sinn, þjóðernissinnaða hægrimanninn Jair Bolsonaro, sitjandi forseta. Hlaut Lula 50,9 prósent atkvæða en Bolsonaro 49,1.

„Lula er mjög vinsæll stjórnmálamaður í Brasilíu og þetta er náttúrulega bara ótrúleg endurkoma út úr fangelsi og aftur í forsetastólinn,“ heldur Eiríkur áfram, en Lula var dæmdur í níu og hálfs árs fangelsi árið 2017 fyrir að hafa tekið við verðmætum, sem nema um 125 milljónum króna að núvirði, frá verktakafyrirtækinu Grupo OAS, sem afhent voru í formi endurbóta á strandhúsi Lula. Í staðinn fékk verktakinn samninga um vinnu fyrir ríkisolíufyrirtækið Petrobras.

Sat inni í 580 daga

Í janúar 2018 var dómurinn þyngdur í tólf ár fyrir peningaþvætti og í 17 ár í nóvember 2019. Lula sat þó ekki inni nema 580 daga og voru dómar yfir honum síðar felldir úr gildi, annars vegar vegna þess að dómstóll í Curitiba hafði ekki lögsögu í málum hans, en hins vegar þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Sérgio Moro, dómari í málinu og síðar dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Jair Bolsonaros, hefði ekki getað verið hlutlaus í garð Lula.

Öll sönnunargögn gegn Lula í dómum Moro voru því dæmd ógild og héldu fræðimenn, aðgerðasinnar og stjórnmálamenn víða um heim, þar á meðal tólf bandarískir þingmenn, því fram, að réttarhöldin yfir Lula hefðu verið eitt stórt samsæri til að gera honum ókleift að bjóða sig fram í forsetakosningunum árið 2018 en hann naut þá gríðarlegs fylgis brasilísks almennings.

Eiríkur Bergmann segir brasilísk stjórnmál einkennast af miklum öfgum, þar …
Eiríkur Bergmann segir brasilísk stjórnmál einkennast af miklum öfgum, þar sé stjórnarstefnunni gjörbylt með reglulegu millibili með tilheyrandi erfiðleikum fyrir land og þjóð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

En aftur að kosningunum í gær. „Það sem maður verður eiginlega að segja er að brasilísk stjórnmál einkennast af gríðarlegri pólariseringu [skautun] og langt pólanna á milli,“ segir Eiríkur. „Stjórnarskiptin fara frá einum öfgum til annarra, frá hörðu hægri til róttæks vinstri,“ heldur hann áfram.

Þetta sé einkennandi fyrir suðuramerísk stjórnmál en sérstaklega áberandi í Brasilíu þar sem stjórnarstefnu sé gjörbylt með reglulegu millibili með tilheyrandi erfiðleikum fyrir land og þjóð sem enn fremur komi í veg fyrir framþróun sem annars gæti orðið í landinu.

Daðraði við fasistastjórnina

„Brasilía er mjög misskipt þjóðfélag og breitt bil milli ríkra og fátækra svo þar getur margt gengið á. Bolsonaro byrjaði náttúrulega á að henda út nánast öllum þegnum Dilmu Rousseff sem tók við af Lula á sínum tíma [1. janúar 2011] og núna mun Lula örugglega hefja leik á að henda út allri arfleifð Bolsonaro,“ spáir prófessorinn.

Jair Bolsonaro hverfur úr embætti, þó með 49,1 prósent atkvæða …
Jair Bolsonaro hverfur úr embætti, þó með 49,1 prósent atkvæða gærdagsins. Eiríkur segir tæp úrslit kosninganna sýna að brasilísk þjóð er klofin í tvennt. AFP/Evaristo Sa

Reiknar hann með umbótum á sviði velferðar- og heilbrigðismála undir stjórn Lula auk þess sem hann muni líkast til bæta hag fátækustu þegnanna.

„Þarna eru miklar pendúlhreyfingar og það er ótrúlega langt á milli þessara fylkinga. Ef við lítum á Danmörku [þingkosningar á morgun] erum við að tala um að stjórnarstefnan geti breyst um þumlung en þarna er það bara himinn og haf, þetta er allt önnur gerð stjórnmála, vinstripólitíkin í Brasilíu er gríðarlega róttæk og þessi hægristjórn var þannig að Bolsonaro daðraði við fasistastjórnina á sínum tíma,“ segir Eiríkur.

Tæp úrslit kosninganna sýni að brasilísk þjóð er klofin í tvennt, munur frambjóðendanna í gær hafi verið svo lítill að það segi í raun ekki neitt um þjóðfélagið hvort Lula taki við af Bolsonaro eða Bolsonaro hefði haldið áfram. „Það er svo sáralítið sem ræður því hvoru megin þetta fellur,“ segir Eiríkur Bergmann prófessor að lokum um kosningarnar í Brasilíu í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka