Bolsonaro „heimilar“ stjórnarskiptin

Hægrimaður­inn Jair Bol­son­aro, frá­far­andi for­seti Bras­il­íu.
Hægrimaður­inn Jair Bol­son­aro, frá­far­andi for­seti Bras­il­íu. Evaristo SA / AFP

Jair Bolsonaro, fráfarandi forseti Brasilíu, hefur „heimilað“ stjórnarskipti í ríkinu, án þess þó að viðurkenna andstæðing sinn, Luiz Inacio Lula da Silva, sem sigurvegara. 

Um tveir sólarhringar eru síðan forsetakosningunum lauk en þar til nú hafði Bolsonaro ekkert látið frá sér fara. Það leiddi til þess að stuðningsmenn hans mótmæltu víða um Brasilíu. 

Stuðningsmenn Bolsonaro hafa mótmælt síðustu daga.
Stuðningsmenn Bolsonaro hafa mótmælt síðustu daga. AFP

Í tveggja mínútu ræðu í dag viðurkenndi Bolsonaro hvorki ósigur né óskaði da Silva til hamingju með sigurinn en hann vann Bol­son­aro naum­lega með 50,9 pró­sent­um at­kvæða gegn 49,1 pró­senti.

Bolsonaro hóf ræðuna á að þakka þeim 58 milljónum Brasilíumanna sem kusu hann áður en hann sagði að vegatálmarnir sem stuðningsmenn hans hafa sett upp víðs vegar um landið væru afleiðing þeirrar tilfinningar þeirra að kosningaferlið hefði verið óréttlátt.

„Sem forseti lýðveldisins og borgari þess mun ég halda áfram að fylgja eftir stjórnarskránni okkar,“ sagði Bolsonaro áður en hann gaf starfsmannastjóra sínum, Ciro Noguiera, orðið. 

Noguiera sagði að Bolsonaro hafi „heimilað upphaf umbreytingaferlis“. Það ferli mun hefjast á fimmtudag og verður da Silva settur í embætti forseta 1. janúar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka