Ekkert heyrst frá Bolsonaro

Bolsonaro á kjörstað.
Bolsonaro á kjörstað. AFP/ Bruna Prado

Hægrimaðurinn Jair Bolsonaro, fráfarandi forseti Brasilíu, hefur enn ekkert látið í sér heyra eftir tap gegn vinstrimanninum Luiz Inacio Lula da Silva í forsetakosningum landsins.

24 klukkustundum eftir að atkvæðagreiðslu hafði lokið í gær hafði Bolsonaro ekki viðurkennt ósigur sinn. Vangaveltur hafa í kjölfarið verið uppi um að hann ætli að draga kosningaúrslitin í efa, með tilheyrandi óvissu fyrir brasilískan almenning.

Lula, sem er fyrrverandi forseti Brasilíu, vann Bolsonaro naumlega með 50,9 prósentum atkvæða gegn 49,1 prósenti.

Lula tekur við embætti forseta 1. janúar.

Bolsonaro hefur hvorki talað opinberlega né tjáð sig á samfélagsmiðlum síðan tilkynnt var um úrslit kosninganna, eftir að hafa undanfarna mánuði talað um meinta galla á kosningakerfi landsins og meint samsæri gegn sér.

Ótti er uppi í Brasilíu um að Bolsonaro reyni að skapa brasilíska útgáfu af óeirðunum við bandaríska þinghúsið sem urðu eftir að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, neitaði að viðurkenna ósigur sinn í forsetakosningunum árið 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka