Árla morguns þann 10. október rigndi niður á stærstu borgir Úkraínu rússneskum eldflaugum, sem urðu að minnsta kosti tuttugu manns að bana og særðu fleiri en hundrað.
Þessar samhæfðu eldflaugaárásir voru þær mestu frá upphafi innrásar Rússa í landið. Síðan þá hafa hátt í hundruð flaugar fylgt í kjölfarið. Meðal annars hafa þær hæft mikilvæga innviði ríkisins og valdið rafmagnsleysi og vatnsskorti fyrir almenna borgara.
Þrátt fyrir fleiri hundruð opinberra mynda og myndskeiða, sem sýna eldflaugarnar á flugi og banvænar afleiðingar þeirra á jörðu niðri, þá hefur lítið verið vitað um þá sem í raun bera ábyrgð á því að ákveða skotmörk þeirra og forrita leið þeirra.
Eftir sex mánaða langa rannsókn náði rannsóknarmiðillinn Bellingcat, í samstarfi við rússneska miðilinn Insider og þýska dagblaðið Spiegel, að komast á snoðir um leynilegan hóp innan rússneska hersins sem stendur á bak við árásirnar. Voru niðurstöðurnar birtar í síðustu viku.
Rannsóknina leiddi búlgarski blaðamaðurinn Christo Grozev, sem vakið hefur heimsathygli fyrir starf sitt á undanförnum árum, en hópur hans hlaut evrópsku rannsóknarblaðamannaverðlaunin fyrir rannsókn sína á Novítsjok-eitrununum í Bretlandi árið 2018.
Á fundi með blaðamanni mbl.is og fulltrúum fleiri fjölmiðla í Helsinki rakti Grozev meðal annars hvernig rannsókninni hefði undið fram, auk þess sem rætt var um fólkið sem tilheyrir þessum leynilega hóp.
„Þegar við erum með trúverðuga kenningu, sem byggir á opinberum gögnum fyrir framan okkur, um hver hafi framið glæp, þá leyfum við okkur að kaupa gögn frá gráa og svarta markaðinum. Gögnin sem við kaupum verða að sjálfsögðu að hlíta skilyrðinu um tvær mismunandi heimildir, eða tvo mismunandi heimildarmenn, eins og í annarri blaðamennsku,“ segir hann.
„Í þessu máli þá byrjuðum við með opinber gögn og leituðum í fyrsta lagi að þeim menntastofnunum sem þóttu líklegastar til að skapa þekkingu til að forrita eldflaugar. Við komumst að því að þær eru aðeins tvær í Rússlandi, sem geta gert það, í Sankti Pétursborg og í Moskvu.
Svo fórum við í gegnum margar árbækur yfir útskriftarnemendur, á vefsíðum tengdum þessum menntastofnunum. Þannig að við gátum búið til lista yfir fólk sem hafði útskrifast þaðan.“
Grozev segir að síðan hafi hópurinn hafið leit að þessum nöfnum í rússneskum gagnagrunnum, sem hefur verið lekið og eru aðgengilegir á Telegram.
„Og við fundum nokkuð sem þau áttu sameiginlegt. Sum þeirra, um tuttugu manns, höfðu sömu skammstöfunina í tengiliðaskrám. Þessar tengiliðaskrár hafa reynst mjög gagnlegar í rannsóknum sem beinast að Rússlandi, en skrárnar sýna í raun hvernig þú myndir setja inn nafn vinar þíns, í þinn eigin síma. Þannig að þú myndir lýsa mér til dæmis sem Christo frá Bellingcat. Þessi gögn fara inn í app og gögn þessa apps eru svo aðgengileg fyrir önnur öpp til að nýta.
Eins og ég sagði þá höfðu um tuttugu þeirra sömu skammstöfunina tengda sínu nafni. Við höfðum ekki hugmynd um hvað hún merkti en komumst að því að þetta er reiknistofnun hersins, en afar lítil gögn eru til um hana. Ég held að alls finnist þrjár greinar um stofnunina og þær hljóma mjög sakleysislega. Þar er talað um upplýsingatæknistuðning fyrir herinn en einnig tölfræðiútreikninga fyrir lífeyri á vegum hersins.
Þannig að það hljómaði nokkuð einkennilega að þessi stofnun, reiknistofnunin, réði til sín sérfræðinga í eldflaugum. Önnur gögn sem hafði verið lekið bentu einnig til þess að margt þetta fólk hefði áður unnið að hönnun leikja.
Á þessum tímapunkti höfðum við því kenningu. Hún var sú að þessi hópur kæmi með einhverju móti að forritun eldflauga.“
Grozev segir að næst hafi hópurinn ákveðið að kaupa farsímagögn forstjóra stofnunarinnar af svarta markaðinum.
Hann tekur fram að um sé að ræða brot gagnvart rússneskum lögum. Almannahagsmunir vógu þó þyngra að hans mati, þar sem rannsókn var þá þegar hafin á mögulegum stríðsglæpum Rússa sem vörðuðu þessar eldflaugaárásir.
„Við keyptum símagögn þessa forstjóra – hann er hershöfðingi – og hófum að skoða tímapunkta þar sem mikið var um samskipti. Við fundum þá mjög áhugaverða fylgni, í mótteknum símtölum sem áttu sér alltaf stað rétt á undan miklum eldflaugaárásum í Úkraínu. Úr einu símanúmeri.
Og með opinberum gögnum komumst við að því að þetta símanúmer tilheyrði ofursta. Hann heitir Ígor Bagnjúk. Ofurstinn lauk námi í eldflaugarafeindatækni í Moskvu og fæddist árið 1982. Ekkert finnst annars um hann í opinberum gögnum og hann skilur ekki eftir sig eitt einasta stafrænt fótspor.
Því næst komumst við yfir hans símagögn. Og þá gátum við séð mjög sterka fylgni á milli samskipta hans við um tuttugu manns, sem við höfðum þegar borið kennsl á, og aukinnar tíðni eldflaugaárása. Á þessum tímapunkti þá var kenning okkar orðin mjög trúverðug, frá tölfræðilegu sjónarhorni.“
Næsta skref þótti augljóst. Það var að hafa samband við allt þetta fólk.
„Og aðeins einn svaraði og hóf samræður. Ég held að það hafi verið vegna þess að hann var hissa. Ég held að öllu þessu fólki hafi verið sagt og því lofað að tilvist þeirra sem hóps yrði aldrei opinberuð. Þess vegna stuðaði þetta þennan unga mann. Og hann í raun játaði að hann vinnur þarna. En hann kvaðst ekki geta svarað nákvæmari spurningum af öryggisástæðum. Þetta staðfesti kenningu okkar og við öfluðum símagagna frá fleirum innan hópsins, sem gerðu okkur kleift að kortleggja uppbygginguna innan hans.“
Grozev tekur fram að rannsóknin hafi vakið siðferðislegar spurningar innan síns rannsóknahóps.
„Í nokkra mánuði veltum við því fyrir okkur, jafnvel þó að við vitum að þetta er tilfellið, hvort það sé í lagi að birta nöfn þessa fólks. Við spurðum marga kollega okkar þessarar spurningar,“ segir hann og nefnir sem dæmi ritstjóra Financial Times og aðstoðarritstjóra Spiegel.
„Mér þótti áhugavert að þetta vafðist ekki fyrir neinum þeirra sem við spurðum. Svarið var: „Þetta eru hermenn. Venjulegu hermennirnir á vígvellinum – þeir njóta engrar nafnleyndar – og hafa engan rétt til þess, af hverju eru þessir öðruvísi?“ Þetta var svar kollega okkar í nærri öllum tilfellum.“
Samt sem áður ákváðu Grozev og félagar að birta nöfnin aðeins eftir að rannsakendur Sameinuðu þjóðanna gáfu það út að mjög líklega væri um stríðsglæpi að ræða.
„Við hugsuðum þá að vonandi myndi birtingin hafa ákveðin forvarnaráhrif og fæla aðra frá því að ganga til liðs við hópa sem þessa. Því að við tókum eftir öðru áhugaverðu og það er að rússneska herinn skortir svona sérfræðinga.
Það eru aðeins um þrjátíu manns sem geta gert þetta, fyrir allar gerðir eldflauga. Þeir nota til dæmis sama fólkið í Úkraínu og þeir gerðu í Sýrlandi. Og við gátum séð í símagögnum forstjórans að hann var að tala við fólk sem var áður í hópnum en starfar nú úti á vinnumarkaðinum. Hann var að reyna að ráða þau aftur. Hluti af rökunum fyrir birtingunni fólst þess vegna í því að gera honum erfiðara fyrir.“
Spurður af hverju Rússar notist við hefðbundna farsíma- og samskiptatækni, þegar þeir starfa samt sem áður við leynileg verkefni á vegum stjórnvalda, kveðst Grozev á fundinum hafa síðast aðeins kvöldið áður spurt rússneskan vin sinn og prófessor þessarar sömu spurningar.
„Hann gaf mér nákvæmlega það svar sem ég tel í raun sígilt í þessu tilfelli. Þessu fólki finnst enginn geta refsað því, svo að það getur gert mistök. Það er alltaf varið af öðru innanbúðarfólki og yfirmönnum sínum. Þetta fólk er hafið yfir lögin og ekki einungis lögin heldur einnig yfir áhættu.“
Grozev tekur dæmi um þetta. Kveðst hann hafa fengið þá hugmynd að kaupa símagögn fólksins í hópnum þann 25. október, eða degi eftir að Bellingcat birti umfjöllun sína um árásirnar og hópinn að baki þeim.
„Svo að ég spurði kollega minn, hvað ef við kaupum símagögnin aftur, til að sjá við hvern þau töluðu eftir birtinguna? Og hans svar var: „Nei, það væri eyðsla á 300 evrum. Því hverjar eru líkurnar á að þau muni aftur nota símana sína, eftir að þau lesa grein um þau sjálf sem er algjörlega byggð á símagögnum þeirra?“ Ég sagði að við ættum samt að láta reyna á þetta.
Í ljós kom að ofurstinn Bagnjúk, um leið og hann hafði lesið greinina, hringdi í forstjórann og svo hringdi hann í FSB og svo framvegis. Svo að við getum séð að þau læra ekki.“
Spurður hvernig hann meti viðbrögð fólksins sem tilheyrir hópnum kveðst hann ekki hafa getað ímyndað sér þau verri.
„Þau virðast líta á þetta sem starf og hugsa ekki um hvað þau eru að gera. Sá fyrsti sem ég hafði samband við, ég valdi hann því mér fannst hann vera skilningsríkastur. Ég byggði það á samfélagsmiðlareikningum hans, kvikmyndunum sem hann horfir á, lögunum sem hann hlustar á, þeirri staðreynd að hann er með hipster-skegg, og einnig að þegar ég hringdi í hann þá var eiginkonan hans í París að vinna að tískusýningu.
Þannig að ég hélt að þessi gæi gæti ekki ekki vitað hvað hann væri að gera. Kannski væri hann einhvers konar gísl. Ég hóf spurningarnar til hans á því að segja:
„Við vitum hvað þú ert að gera, við höfum verið að fylgjast með þér og hvernig geturðu lifað með sjálfum þér eftir þetta?“
Þarna voru fregnir dagsins þær að eldflaug hefði hæft leikskóla,“ bendir Grozev á.
„Svar hans var: „Láttu ekki svona. Vertu fagmannlegur. Spurðu mig nákvæmra spurninga ef þú vilt svör.“ Svo spurði ég hann nákvæmrar spurningar og þá sagði hann: „Þú veist að ég get ekki svarað því. Ég er ekki brjálaður.“ Þannig að meira að segja þessi náungi lítur algjörlega á þetta eins og venjulegt starf.“
Grozev segir að þetta hafi valdið sér miklum vonbrigðum.
„Og annað sem gefur þetta einnig til kynna er að þetta fólk er að gera hluti í vinnunni sem koma ekki heim og saman við það að upplifa sterkar tilfinningar.“
Hann nefnir sem dæmi að fólkið sé að nota stefnumótaöpp og kaupa varning á netinu.
„Á meðan þau eru að skjóta og drepa fólk, þá eru þau líka að prútta niður verð á safnmyntum.“