Pútín segir nauðsynlegt að flytja fólk frá Kerson

Pútín ávarpaði sjálfboðaliða á Rauða torginu í Moskvu í dag.
Pútín ávarpaði sjálfboðaliða á Rauða torginu í Moskvu í dag. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að flytja eigi almenna borgara frá borginni Kerson í suðurhluta Úkraínu, en borgin er undir yfirráðum rússneskra hersveita. Þær hafa unnið að því að flytja fólk á brott frá því um miðjan október á sama tíma og úkraínskar hersveitir hafa sótt fram. 

„Það á að fjarlægja þá sem búa í Kerson frá svæðum sem harðir bardagar geisa,“ sagði Pútín á fundi í Moskvu í dag. Hann sagði að almenningur ætti ekki að þjást vegna átakanna. 

Talsmenn rússneska hersins greindu frá því síðar í dag að unnið sé að því að flytja ríflega 5.000 óbreytta borgara frá Kerson-héraði daglega. 

Úkraínskur skriðdreki sést hér nálgast Kerson-hérað í liðinni viku.
Úkraínskur skriðdreki sést hér nálgast Kerson-hérað í liðinni viku. AFP

Rússneskar hersveitir í Kerson segjast hafa aðstoðað tugi þúsunda við að yfirgefa svæðið og hafa heitið því að umbreyta Kerson-borg í virki.

Yfirvöld í Úkraínu hafa líkt aðgerðum Rússa í Kerson við þá tíma þegar Sovétríkin flutu Úkraínumenn á brott frá sínum heimasvæðum. 

Pútín ávarpaði í dag sjálfboðaliða sem tóku þátt í því að aðstoða fólk sem hefur yfirgefið Kerson. Þar fór enn fremur fram minningarathöfn þar sem þeirra var minnst er hröktu Pólverja á brott í kjölfar innrásar þeirra í Rússland árið 1612. 

Pútín segir að rússnesk stjórnvöld hafi sent um 318.000 nýja liðsmenn á átakasvæði frá því hann tilkynnti um herkvaðningu í september, en þeirri aðgerð er nú lokið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert