Forsvarsmenn Twitter segja að það eigi að hefja uppsagnir á starfsfólki í dag, en þetta kemur fram í minnisblaði sem var sent á starfsfólk. Nokkrir starfsmenn hafa höfðað mál vegna þessarar ákvörðunar Elon Musk, sem eignaðist nýverið samfélagsmiðilinn, en starfsfólkið segir að þetta sé brot bandarískri vinnulöggjöf.
Fram kemur í umfjöllun AFP að í minnisblaðinu, sem fréttastofan hefur undir höndum, að starfsmenn Twitter muni fá að vita um örlög sín með skilaboðum sem eiga að berast í tölvupósti við upphaf vinnudags á Kaliforníutíma í dag. Kalifornía er sjö klukkustundum á eftir íslenskum tíma.
Ekki kemur fram hversu mörgum verði sagt upp. En bandarísku dagblöðin Washington Post og New York Times hafa greint frá því að um helmingur starfsliðsins verði látinn fara. Nú starfa alls um 7.500 manns hjá fyrirtækinu.
„Sem viðleitni til að færa Twitter inn á heilbrigða braut, þá munum við fara í gegnum það erfiða ferli sem er að fækka í starfsliði okkar á heimsvísu,“ segir í minnisblaðinu.
Starfsmenn Twitter hafa verið að búa sig undir þessi tíðindi frá því Musk lauk við að ganga frá 44 milljarða dala kaupum sínum á Twitter í liðinni viku. Eitt af hans fyrstu verkum sem nýr eigandi var að leysa upp stjórn fyrirtækisins, reka forstjórann og aðra hátt setta stjórnendur.
Í gær var greint frá því að fimm starfsmenn Twitter hefðu höfðað hópmálsókn gegn Twitter á þeim grundvelli að fyrirtækið hefði ekki virt lögbundinn 60 daga frest til að láta starfsfólk vita af ofangreindum fyrirætlunum.
Í málsókninni er vísað í sérstaka alríkis- og Kaliforníulöggjöf, (WARN), sem veitir starfsfólki þann rétt að fá að vita með þessum fyrirvara standi til að fara í hópuppsagnir eða loka verksmiðjun t.d.
Einnig er dómstólinn beðinn um að koma í veg fyrir að Twitter geti farið fram á það við starfsfólk að skrifa undir skjöl sem myndi fyrirgera þeirra rétti gagnvart WARN-löggjöfinni.