Rússneski kaupsýslumaðurinn Jevgení Prígosjín, sem oft hefur verið kallaður „kokkur Pútíns“ segir að Rússar hafi haft áhrif á kosningar í Bandaríkjunum. Þetta viðurkenndi hann í dag, en Prígosjín er í nánu sambandi við Vladimir Pútín, forseta Rússlands.
Í yfirlýsingu frá Prígosjín er haft eftir honum að Rússar hafi haft áhrif, hafi enn áhrif og muni áfram hafa áhrif á kosningar erlendis, en þar svaraði hann fyrirspurn Bloomberg-fréttaveitunnar um umfjöllun hennar um að Rússar hefðu áhrif á þingkosningarnar (e. midterm elections) sem fram fara á morgun.
Prígosjín hefur viðurkennt að standa á bak við Wagner-sveitirnar sem m.a. berjast í Úkraínu og þá hefur hann verið orðaður við fyrirtækið Netrannsóknarstofnunina (Internet Research Agency), sem bandaríska dómsmálaráðuneytið kærði árið 2018 fyrir afskipti af kosningunum 2016 með því að standa fyrir stórfelldum draugagangi á netinu í gegnum tröllabú (e. Troll farm) sitt, sem er hluti af Netrannsóknarstofnuninni.
Prígosjín fæddist í Leníngrad, nú Pétursborg, árið 1961. Tvítugur var hann dæmdur í 13 ára fangelsi fyrir rán, líkamsárás og fjársvik, en var látinn laus níu árum síðar, um það leyti sem Sovétríkin liðu undir lok.
Skömmu eftir að hann fékk frelsið á ný fór hann að reka pulsuvagn í Pétursborg. Í kjölfarið opnaði hann kjörbúð og því næst lúxusveitingastaði í Pétursborg í samstarfi við aðra. Á sama tíma kleif Pútín metorðastigann í Pétursborg og hélt hann iðulega upp á afmælið sitt á veitingastöðum Prígosjíns. Eftirleiðis hefur Prígosjín verið kallaður kokkur Pútíns.
Um leið og hann hóf veitingarekstur árið 1996 stofnaði hann veitingaþjónustuna Concord og varð sér úti um væna samninga við ríkið um veitingaþjónustu fyrir skóla og herinn. Einnig sá Concord um veitingaþjónustu í veislum á vegum ríkisins, þar á meðal við innsetningu Dmítrís Medvedevs og Pútíns í stól forseta. Concord mun hafa fengið samninga að andvirði 3,1 milljarðs bandaríkjadala á fimm ára tímabili.
Í fyrrnefndri kæru bandaríska dómsmálaráðuneytisins er Prígosjín nefndur á nafn ásamt 12 öðrum og fyrirtækinu Concord.
Ítarlega var fjallað um Prígosjín og feril hans í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í lok október.