Allt útlit er fyrir að repúblikanar muni hafa betur í þingkosningunum í Bandaríkjunum sem fara fram í dag, þar sem góðar líkur eru á því að þeir muni fá meirihluta fulltrúa í fulltrúadeildinni, auk þess sem baráttan um öldungadeildina hefur snarharðnað á síðustu vikum.
Samkvæmt kosningalíkani heimasíðunnar fivethirtyeight.com, þar sem mögulegar niðurstöður kosninganna eru reiknaðar út með aðstoð tölvu í 40.000 skipti, eru sagðar um 83% líkur á því að repúblikanar muni ná meirihluta í fulltrúadeildinni, en líkanið metur sem svo að einungis 17% líkur séu á að demókratar haldi meirihluta sínum þar.
Í öldungadeildinni metur líkanið stöðuna þannig að repúblikanar muni einnig ná meirihluta í öldungadeildinni í um 54% tilfella, og það þrátt fyrir að demókratar hafi þar þá „forgjöf“, að falli þingsætin jöfn fer Kamala Harris varaforseti með oddaatkvæðið.
Þessi spá þykir ekki koma á óvart og spila þar nokkrir þættir inn í. Fyrir það fyrsta eru þingkosningar á miðju kjörtímabili forseta oft erfiðar flokki forsetans. Frá árinu 1934 hafa verið haldnar 22 þingkosningar á miðju kjörtímabili, og hefur flokkur forseta þar tapað að meðaltali 28 sætum í fulltrúadeildinni og fjórum sætum í öldungadeildinni, en meirihluti demókrata er nú átta sæti í fulltrúadeildinni og oddaatkvæði varaforsetans í öldungadeildinni. Á þessu tímabili hafa bara Franklin Roosevelt og George W. Bush náð að „halda velli“ í báðum deildum þingsins á miðju kjörtímabili.
Ítarlega fréttaskýringu um þingkosningarnar má lesa í Morgunblaði dagsins.